Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 14:00:15 (8863)

2004-05-24 14:00:15# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, sagði í upphafi 3. umr. að hér hefði farið fram löng og ítarleg umræða. Þannig tala bara þeir sem lítið vit hafa á lýðræðinu og sköpunarkraftinum sem fólginn er í lýðræðislegri umræðu. Það er mikill misskilningur að halda því fram að einræður stjórnarandstæðinga úr ræðustóli Alþingis komi í staðinn fyrir virka lýðræðislega umræðu og skoðanaskipti í samfélaginu. Slík einföldun er tilraun valdagírugra stjórnarherra, sem hafa vondan málstað að verja, til yfirklórs og réttlætingar forkastanlegra vinnubragða.

Hæstv. forsrh. ákvað í upphafi að ritstýra umræðunni um ástandið á fjölmiðlamarkaði með því að banna umræður um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar fyrr en fyrir lægi frv. hans sjálfs sem bæri vott um hans þröngsýna vilja. Það gerræði kom í veg fyrir að hægt væri að skoða möguleikana á lagasetningu um almennar leikreglur um fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Svona er mér innan brjósts. Ég segi nei.