Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:32:46 (8912)

2004-05-25 11:32:46# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég heyri að menn eru farnir að ræða fjölmiðlamálið að nýju. Það er heldur seint í rassinn gripið, það er búið að samþykkja það frv. (PHB: Er enn í umræðu í nefndinni.) en er enn í umræðu í nefndinni, segir formaður efh.- og viðskn. Hann sagði reyndar einnig að nokkrir góðir punktar hefðu verið inn á milli en ræðurnar verið of langar. Staðreyndin er sú að umræðan var fyrst og fremst löng af þeirri ástæðu að mjög margir tóku þátt í henni. Það voru örfáar alllangar ræður en að uppistöðu til voru þetta fremur stuttar eða hóflegar ræður og að mínu mati mjög innihaldsríkar.

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að lýsa stuðningi mínum við breytingartillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur við frv. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara en þegar á heildina er litið er ég samþykkur þessu frv. en tek undir með hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni að það er mjög bagalegt að við skyldum ekki afgreiða breytingartillöguna. Hún kom ítrekað til umræðu í efh.- og viðskn. Það kom fram hjá formanni nefndarinnar, bæði á nefndarfundum og hefur einnig verið ítrekað í þingsalnum að hann sé að mörgu leyti meðmæltur þeirri stefnu sem felst í tillögunni eða telji hana a.m.k. vel íhugunarverða og að málið yrði hugsanlega skoðað milli umræðna, milli 2. og 3. umr. ef ég man rétt. Það sem mér þótti hins vegar slæmt að heyra voru þær yfirlýsingar að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn mundi ekki leggja lykkju á leið sína vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið í þinginu um átakamál á borð við fjölmiðlamálið. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur og umhugsunarvert fyrir þá sem heyra þessa umræðu að velta því fyrir sér hvert tilefnið er sem ríkisstjórnin vilji ekki leggja lykkju á leið sína fyrir. Það eru málefni öryrkja. Ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja lykkju á leið sína fyrir öryrkja. Komin er fram tillaga í þinginu um að skattafsláttur verði veittur af svokölluðum viðbótarlífeyrissparnaði hjá öryrkjum. Það væri sambærilegt við það sem launafólk nýtur almennt og hér er lögð fram tillaga um að sá skattafsláttur nái einnig til öryrkja. Ekki er verið að fara fram á að það komi framlag í lífeyrissjóðinn frá ríkinu, frá hinu opinbera. Það er ekki verið að ræða um slíkt. Það er verið að ræða um að öryrkjar njóti sömu skattfríðinda og launafólk almennt gerir. En ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja lykkju á leið sína til að koma til móts við stjórnarandstöðuna í því efni.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. en lýsi mjög eindregnum stuðningi við þá breytingartillögu sem liggur fyrir.