Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:44:08 (8914)

2004-05-25 11:44:08# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Ég er búinn að svara því hvað er aðili. Það er fyrst og fremst t.d. stjórn hlutafélags eða eigendur að sameignarfélagi. Í öðru lagi geta þeir tilnefnt einhvern aðila, t.d. fjármálastjóra, sem eigi að veita upplýsingar hjá skattrannsóknarstjóra. Þá mætir hann. Ég held að þetta sé alveg kristaltært.

Varðandi ,,að forfallalausu`` sem hv. þm. er búinn að tala um aftur og aftur nefndi ég að þetta er í samræmi við önnur lög þar sem þetta er búið að vera í fjölda ára, í lögum um meðferð opinberra mála. Þar er talað um ,,að forfallalausu`` líka þannig að ég skil ekki þessa umræðu alla.

Varðandi frv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur, eða brtt. sem er í rauninni heilt frv., sagði ég að á henni væru ýmsir gallar eða ýmis atriði sem þyrfti að lagfæra og þarf að ræða. Meðal annars er að af launum þeirra aðila sem núna mega spara er greitt tryggingagjald og það er mótframlag atvinnurekenda. Ég sagði alls ekki að það ætti að gilda í þessu máli, alls ekki, enda hefur sérstaklega verið tekið fram að svo yrði ekki. En þetta er eitt af þeim atriðum sem þyrfti að skoða, t.d. hvernig maður fer með tryggingagjaldið.

Svo er það þannig, frú forseti, að ég er ekki einn í þingflokki mínum. Ég segi ekki ,,við sjálfstæðismenn`` eins og sumir segja ,,við samfylkingarmenn`` eins og þeir séu allir samtengdir á heila. Ég þarf að bera undir þingflokkinn svona breytingar, að sjálfsögðu, og það hefur ekki unnist tími til þess í þeim miklu --- ja, ég vil kalla það slagsmálum sem hafa verið á þingi.

Svo vil ég benda hlustendum og hv. þingmönnum á að hv. þm. heldur áfram. Hann talar um að ég þurfi að bæta ráð mitt, ég sé með loðnar skýringar og hann hafi reitt mig til geðshræringar eða reiði o.s.frv. Mér finnst þetta ekkert voðalega málefnalegt, frú forseti.