2004-05-26 13:51:36# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Eins og fyrri daginn verður ekki séð hvernig mögulegt er að rjúfa vítahring ofbeldisverka og koma á nokkuð eðlilegu ástandi í málefnum Ísraels og Palestínu. Þvert á móti virðast logarnir í ófriðarbálinu aukast. Það hefur verið ógnvænlegt að fylgjast með þeim atburðum sem verða nánast daglega á þessu svæði. Framferði Ísraelsmanna gagnvart palestínsku þjóðinni, leiðtogum þeirra og almenningi hefur fyrir löngu misboðið heimsbyggðinni. Sama má segja um aðgerðir sem Palestínumenn hafa haft uppi gagnvart Ísraelsmönnum.

Alþjóðasamfélagið hefur ítrekað beitt sér fyrir lausn á málum og íslensk stjórnvöld og Alþingi hafa margoft komið sjónarmiðum sínum á framfæri gagnvart þessum aðilum. Allt hnígur að því að beita deiluaðila þrýstingi til þess að ná saman um framtíðarlausn á sambúðarvanda þessara þjóða. Sú afstaða okkar hefur komið fram, og er óbreytt, að varanleg lausn felist í því að öryggi Ísraelsríkis verði best tryggt innan vopnahléslínunnar frá 1949 og að stofnað verði sjálfstætt ríki Palestínumanna.

Við núverandi aðstæður gæti sú forsenda virst öfugmæli að Ísraelsmenn telji sig örugga innan eigin landamæra en um leið verður að tryggja efnahagslegan grundvöll ríkis Palestínumanna og samfélag þjóðanna verður að hlaupa undir bagga með þeim um leið og aðstæður leyfa. Það er ljóst að það óréttlæti og ofbeldi sem á sér stað verður ekki afnumið með endurteknu og auknu óréttlæti og ofbeldi. Þvingaður friður getur vart orðið varanlegur.

Eftir stendur að nágrannaríki þessara þjóða og alþjóðasamfélagið í heild bera mikla ábyrgð og þessir aðilar verða áfram að beita sér fyrir lausn mála. Sem fyrr er það skoðun mín að þar leiki Bandaríkjamenn lykilhlutverk. Þeim ber að beita sér heiðarlega og af alefli fyrir lausn mála á svæðinu og standa þannig undir þeirri miklu ábyrgð sem þeir bera.