Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:58:29 (9029)

2004-05-26 18:58:29# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir flest sem kom fram í andsvari hv. þm. Aðalmálið er einmitt að sjóðurinn virki. Þess vegna leggjum við fram brtt. um að tónlistarmenn skipi sjálfir meiri hluta ráðsmanna, einmitt til þess að sjóðurinn virki og skugga flokkspólitískra nefndaskipana verði ekki varpað á þetta annars prýðilega mál sem við studdum með mjög jákvæðum og uppbyggilegum hætti strax við 1. umr. Þá bentum við á ýmislegt sem betur mætti fara og áttum alltaf von á því að fulltrúar meiri hlutans kæmu til móts við þessa eðlilegu tillögu okkar sem á einmitt fyrst og fremst að tryggja að sjóðurinn virki vel, að stjórn hans skipi fólk sem veit hverjum klukkan glymur hverju sinni meðal tónlistarmanna svo að ekki sé hægt að draga í efa hæfi tónlistarráðsins til að útdeila fjármagninu til tónlistarmanna með því að segja að þarna sé bara að finna flokksgæðinga Sjálfstfl. sem margir hverjir eru náttúrlega gæðingar og ágætir í að útdeila almannafé. Það er ekki hægt að efast um að þetta sé vænsta og besta fólk. En Sjálfstfl. verður að gæta hófs í þessu og vita hvað til síns friðar heyrir. Í því felst t.d. að fagsjóður sem þessi sé best kominn í höndum tónlistarmanna sjálfra í þessu tilfelli og þess vegna leggjum við fram brtt. Tilgangur hennar er að tryggja að sjóðurinn geti gegnt þessu mikilvæga hlutverki sínu og verði músíkinni, tónlistarmönnunum og menningunni í landinu til framdráttar og upplyftingar en menn dragi ekki í efa hæfi sjóðsins til að sinna hlutverkinu út af flokkspólitískum afskiptum þótt ekki sé endilega um þau að ræða.