2004-05-27 04:55:33# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[28:55]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni sjútvn. fyrir að fara yfir spurningarnar sem fyrir hann hafa verið lagðar í ræðum, fyrir að gera heiðarlega tilraun til að svara þeim og svara þeim eins og hann best gat. En það er svo í þessu eins og mörgu öðru, að því fleiri spurningar vakna sem reynt er að svara. Mér finnst vanta svör við spurningu sem hér kom fram, um hvaða réttur varð allt í einu til hjá þeim aðilum sem hafa róið í dagakerfinu og vitað var að hefðu bara sóknarrétt en engan rétt til varanlegra aflaheimilda. Hvaða réttur kviknaði allt í einu hjá þessum hópi manna til að eignast varanlegan kvóta og fá frá sjútvrn. kvótabréf sem hægt væri að breyta í peninga? Ég get ekki komið auga á að þeir hafi neinn rétt til þessara heimilda. Þeir hafa bara sóknarréttinn. Hvað veldur?