Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:47:44 (9163)

2004-05-27 11:47:44# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki beinlínis að gera þetta að tillögu minni. Því miður varð ég ekki áskynja um þessa breytingu fyrr en það seint í ferlinu að þegar var búið að ganga frá málinu.

Ég rifja það upp að ég tók undir með hæstv. forsrh. hér í 1. umr. um að sjálfsagt væri af stjórnsýslulegum ástæðum að forsrn. væri sá forsjáraðili sem með málefni þjóðgarðsins færi innan Stjórnarráðsins. Sú þróun hefur verið í gangi áratugum saman og kannski aukist mest á síðustu árum, og með setningu stjórnsýslulaga fyrir töluverðu síðan var eiginlega nauðsyn á því að til væri einhvers konar æðra stjórnvald sem hægt væri að skjóta úrskurðum Þingvallanefndar til. Það var meginástæðan fyrir því að þetta er svona í gadda slegið í frv. sem kemur frá hæstv. forsrh. Þá sagði hins vegar í þeirri umræðu hæstv. forsrh. að hann hygðist með engu móti auka íhlutun eða inngrip forsrn. í stjórnsýslu garðsins.

Nú finnst mér það auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að þessi vernd sem Alþingi veitir birtist í því að stjórnin er kjörin einvörðungu úr hópi alþingismanna. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég hefði samt sem áður talið farsælla og meira í samræmi við verndarhlutverk Alþingis að það væri þingið sjálft sem með einhverjum hætti skipaði formann og varaformann nefndarinnar. Ég hefði talið fara ágætlega á því að forseti Alþingis eða forsn. eftir atvikum gerði það. Þá væri þetta algjörlega skýrt.

Ég ætla ekki að vera með miklar ræður um þetta hér á eftir og vil taka það alveg skýrt fram að þetta stendur í engum tengslum við þá orrahríð sem hefur staðið milli stjórnarandstöðu og hæstv. forsrh. Hann hefur sinnt þessu máli mjög vel, málefnum garðsins. Ég er að hugsa til lengri framtíðar því að þetta er náttúrlega virðulegasta nefnd lýðveldisins og á eftir að sitja ákaflega lengi.