Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:50:03 (9164)

2004-05-27 11:50:03# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Ég og aðrir þingmenn Samf. í hv. allshn. skrifum án fyrirvara undir það álit sem hér liggur fyrir og var kynnt af hv. formanni nefndarinnar Bjarna Benediktssyni. Þótt auðvitað sé það þannig í öllum málum að kannski mætti eitthvað vera öðruvísi varð það einróma niðurstaða okkar að í þessu frv. og þeim tillögum sem hér eru lagðar fram væri það vel á málum haldið í heildina tekið að við mundum vera án fyrirvara á þessu áliti.

Eins og rakið er í nál. allshn. er verið að setja ný heildarlög um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Það er verið að stækka hann sexfalt og síðan er verið að setja þarna fyllri efnisreglur um stjórn þjóðgarðsins og kveða á um tengsl Þingvallanefndar við hefðbundna stjórnsýslu og úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar. Allar eru þessar breytingar nauðsynlegar og þær eru líka allar að mínu mati til bóta.

Líka er gert ráð fyrir því, eins og greint er frá í áliti hv. allshn., að mælt verði fyrir um samráð Þingvallanefndar við sveitarstjórnir Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar í reglugerð og því er beint til ráðherra að svo verði gert. Athugasemdir komu fram af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaganna um að ekki væri nægilegt samráð haft við þær þegar kveðið var á um málefni þjóðgarðsins. Það er að mínu mati tvímælalaust æskilegt að skýrt sé kveðið á um þetta því að auðvitað á að hafa samráð við sveitarstjórnir í málum sem varða þjóðgarðinn. Hið sama á reyndar líka við um Fornleifavernd ríkisins, um stjórnsýslu fornleifa á svæðinu, en það skal ítrekað að það samráð hefur verið virkt hingað til og ekkert í sjálfu sér undan því að kvarta. Hins vegar er eðlilegt að skýrt sé á um þetta kveðið.

Fram komu athugasemdir af hálfu þjóðkirkjunnar um að í greinargerð með frv. væri fjallað um það að Þingvellir væru í ríkiseigu og gerðar athugasemdir við það. Af því tilefni var það tekið skýrt fram í nál. allshn. að frv. fæli ekki í sér neina efnislega breytingu hvað þetta varðar. Þingvellir eru í eigu íslensku þjóðarinnar og stendur ekki til að breyta neinu hvað það varðar í þessu frv. Þetta var tekið skýrt fram í ljósi þess að þjóðkirkjan hafði af því áhyggjur að þarna væri eitthvað verið að breyta því ástandi sem fyrir er. Ég held að það sé gott að nefndin kveður skýrt á um þetta í nál. sínu.

Það sem er hvað ánægjulegast að mínu mati í þessum tillögum er að aukið skuli vera við frv. sérstöku ákvæði um vatnið og lífríki þess. Umhvrh. leggur samhliða þessu frv. fram frv. til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess og ég held að mjög æskilegt sé að hér sé líka kveðið á um það að sá hluti vatnsins sem verður innan þjóðgarðsins muni heyra undir valdsvið Þingvallanefndar svo að nefndin hafi þá tilskildar valdheimildir hvað varðar vatnsvernd innan þjóðgarðsins. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt.

Aðeins varðandi þau atriði sem lúta að stjórnsýslunni og því sem hér kom fram í andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hefði vissulega farið mjög vel á því að forseti Alþingis, í ljósi tengsla þjóðgarðsins og Alþingis og í ljósi þess að Þingvallasvæðið er undir sérstakri vernd Alþingis, skipaði formann og varaformann. Ég vil segja að mér þótti þetta ekki vera grundvallaratriði í ljósi þess að það er skýrt kveðið á um þessa vernd Alþingis. Forsrh. hefur stjórnsýsluhlutverkið með höndum og með þessum brtt. erum við að auka enn þá meira vægi þingflokkanna í nefndinni frá því sem var. Nefndin var þriggja manna en nefndarmönnum er fjölgað upp í sjö. Mér þykir mikilvægari breyting að verið sé að auka enn vægi þingsins í Þingvallanefndinni í raun og veru. Þar fá nú allir þingflokkar fulltrúa. Ég held að það sé kannski ekki aðalatriði að kveða sérstaklega á um það að forseti Alþingis skipi formann og varaformann þó að ég geti tekið undir með formanni Samf. að því leyti til að það hefði farið mjög vel á því. Mér finnst þetta samt ekki vera aðalatriði, mér finnst miklu mikilvægara að verið sé að setja fleiri fulltrúa í nefndina þannig að þar geti allir þingflokkar komið að manni. Það held ég að sé mjög mikilvæg breyting og til þess fallin að auka vægi Alþingis og áhrif þess innan þessarar nefndar.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Það var eitt reyndar sem kom nokkuð til umræðu í hv. allshn. og það má segja að sú umræða hafi birst nú í brtt. frá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Það snerist um það hvort ný skipan Þingvallanefndar ætti að taka gildi fyrr en gert var ráð fyrir. Sú nefnd sem nú situr er skipuð til fjögurra ára samkvæmt síðustu skipun. Ég taldi eðlilegt og tel það vera eðlilegt að sú nefnd klári kjörtímabil sitt og þá taki breytingarnar gildi. Um þetta var nokkuð rætt í nefndinni og aðrir á annarri skoðun og lítið um það að segja. Mér þykir eðlilegt að þegar Alþingi er nýbúið að kjósa nefndina sitji hún út kjörtímabil sitt og breytingarnar taki gildi eftir það. Ég er þar af leiðandi sammála því sem gert er ráð fyrir í nál. um það.

Í heildina séð held ég að við getum öll verið stolt af þessu máli og ánægð með þá vinnu sem það fékk í hv. allshn.