Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 09:39:14 (9342)

2004-05-28 09:39:14# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[09:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það hefði nú að mörgu leyti verið æskilegt að aðstæður hefðu verið aðrar þegar loksins kemur að því að ræða hér þessi þrjú raforkumálafrumvörp sem verið hafa til umfjöllunar í iðnn. í vetur, að tíminn hefði leyft kannski rækilegri skoðanaskipti um þau mál og raforkumálin í heild sinni heldur en boðið er upp á hér undir lok þinghaldsins á þessum mögulega síðasta starfsdegi þess. Eins og orðaskipti áðan báru með sér er náttúrlega undirliggjandi sjálft skipulag raforkumálanna hér í landinu, eignarhaldsfyrirtækja, og vangaveltur um framtíðarfyrirkomulag þess. Eðlilega vegna þess að það má færa gild rök fyrir því að menn hefðu náttúrlega átt að reyna að taka til í því kerfi fyrst og móta framtíðarstefnu áður en menn færu í aðgerðir af því tagi sem hér eru undir, þ.e. markaðsvæðingu og undirbúning undir einkavæðingu raforkumálanna í anda þeirra evrópsku tilskipana um innri markað fyrir raforku á meginlandi Evrópu sem hér er verið að baksast við að halda áfram að innleiða og gera lagalegar ráðstafanir gagnvart.

Af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson líkti vinnuaðferðunum hér við það að menn byggðu kjallara eða sökkla að húsi og héldu svo reisugildi þá er það svo sem ágæt lýsing en það má jafnvel alveg eins segja að menn hafi valið sér það furðulega verklag að ætla að byggja nokkurra hæða hús og byrja á risinu og séu svo að berjast við að skjóta hæðunum inn undir risið, hverri á fætur annarri í smáskömmtum og er alveg augljóslega ekki allt búið enn. Hér erum við að breyta þeim raforkulögum sem eru nú ekki eldri en frá árinu 2003. Þá stóðu menn upp frá hálfnuðu verki eða varla það og skildu eftir ýmsar heitustu kartöflurnar, þar á meðal hvernig ætti að reyna að koma fyrir jöfnun raforkuverðs í landinu, eignarhaldi og skipulagi flutningafyrirtækisins og öðru sem leiðir af innleiðingu efnisákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 96/92, um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Hér er sem sagt gert annað áhlaup að því að koma í lög ákvæðum og útfært talsvert af því sem skilið var eftir í lausu lofti á vordögum 2003 en er þó engan veginn búið, og er ég þá ekki bara að tala um þessi stóru framtíðarmál um spurningu um eignarhald fyrirtækjanna og samskipti aðila í þeim efnum, ríkis og sveitarfélaga o.s.frv.

Nei, nei, ýmsir lausir endar eru hér í málinu sjálfu og þeir eru settir í hendur á úrskurðarnefndum af því að það er auðvitað alls ekkert búið að botna það hvernig eigi að meta mannvirki og eignir inn í hið nýja fyrirkomulag. Þá er sett upp kerfi úrskurðarnefnda sem getur síðan endað í gerð eða á borði ráðherra eða hvað það nú er. Heitustu kartöflunum rúlla menn svona á undan sér og taka hálfgerð áhlaup á þær í smáskömmtum.

Síðan ætla ég að lofa mönnum því, þó að þetta verði nú lögtekið hér þá held ég að ég geti alveg lagt mig undir í þeim efnum að við erum ekki að sjá það síðasta af þessum málum hér á Alþingi þar með. Það má mjög mikið vera ef þessi löggjöf verður ekki í höndunum á mönnum hér ár eftir ár á næstunni vegna þess að það koma upp alls konar vandamál og alls konar vesen og við munum lenda í því sama og ýmsir aðrir í kringum okkur sem hafa verið að ganga þessa sömu þrautagöngu að menn verða hér með reddingar og alls konar breytingar. Skyldi nú ekki orkumálastjóri eiga eftir að uppgötva ýmislegt á næstu mánuðum alveg eins og hann hefur gert núna undanfarna mánuði, því að helstu aðstandendur frv., iðnrn. og Orkustofnun, hafa auðvitað verið að koma nánast vikulega með nýjar hugmyndir og uppgötva nýjan sannleik í sínum eigin frumvörpum og leggja til að þetta eða hitt sé nú haft öðruvísi, svona og svona. Þannig er það nú.

Þetta stafar auðvitað af því, frú forseti, að við erum að vinna hér við þvingaðar aðstæður. Það er verið að þvinga upp á á íslenska raforkumarkaðinn tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins, sem setur mönnum miklar skorður um það hvernig menn geti staðið að málum og verki á komandi árum og áratugum. Þetta er auðvitað bagalegt og í raun og veru beinlínis heimskulegt af tveimur ástæðum kannski sérstaklega. Sú fyrri er að tilgangur og inntak orkutilskipunar Evrópusambandsins á ekkert erindi við Ísland á einn eða neinn hátt einfaldlega vegna þess að hér er einangraður orkumarkaður og öll helstu markmið orkutilskipunarinnar lúta að því að opna fyrir samkeppni í raforkuframleiðslu og sölu á stórum markaði meginlands Evrópu og auðvelda viðskipti milli landa og búa til raunverulegan samkeppnismarkað þar sem aðstæður eru til staðar fyrir slíkt, þ.e. mikill fjöldi framleiðenda er til staðar til að keppa um að selja þjónustuna sem er auðvitað einhver grundvöllur fyrir því að skilyrði raunverulegs virks samkeppnismarkaðar séu uppfyllt.

[09:45]

Hitt sem gerir það að verkum að þetta skapar mikil vandkvæði og mikla erfiðleika eru auðvitað séríslenskar aðstæður hvað varðar eignarhald og uppbyggingu fyrirtækjanna en hér er um að ræða nokkuð sérstætt sambland af eign og frumkvæði ríkisins og sveitarfélaga. Öðrum aðilum en hinum opinberu er í raun og veru ekki til að dreifa svo nokkru máli skipti, það er ríki og sveitarfélögum í mismunandi samkrulli; í gegnum Landsvirkjun þar sem menn eru í sameign, ríki og tvö stærstu sveitarfélögin, ríkið með Rarik og nú Orkubúi Vestfjarða, og síðan sveitarfélögin með sín dreififyrirtæki og eftir atvikum framleiðslu í einstökum tilvikum.

Frú forseti. Ég ætla hér að gera stuttlega grein fyrir meginafstöðu okkar til þessara mála og ætla að reyna að taka í það eins stuttan tíma og mér er unnt og mæla svo fyrir brtt. sem ég flyt við þetta frv. og eru í aðalatriðum á þá leið að ríkisstjórnin fái fyrirmæli frá Alþingi um að leita eftir viðræðum við Evrópusambandið um að Ísland fái varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 96/92, um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku, og að ekki skuli tekin frekari skref í átt til markaðsvæðingar íslenska raforkukerfisins meðan slíkar viðræður fara fram við Evrópusambandið um framhald málsins.

Nú er vísast að hæstv. iðn.- og viðskrh. og fleiri menn hér stökkvi upp og telji þetta einhverja mestu fjarstæðu sem þeir hafi nokkurn tíma heyrt undir sólinni að láta það hvarfla að sér að fara að reyna að ræða við Evrópusambandið um að Ísland fái þarna einhverja undanþágu. (Iðnrh.: Búin að prófa það.) Búin að prófa það, segir hæstv. ráðherra, já. Ætli það sé ekki í lagi að reyna það þá aftur? Kannski koma einhverjir sannheilagir Evrópusinnar og segja að slíkt sé bara ekki í boði, að það gerist bara ekki. Það sem einu sinni eru orðin lög skuli vera lög um aldur og ævi og menn fastir undir þeim. Þá er líka fróðlegt að fá þá umræðu. Er þá Evrópusambandið þannig að menn séu reyrðir fastir um aldur og ævi inn undir hlutina þó að í ljós komi að það sé alveg arfavitlaust og þjóni engum tilgangi að menn séu heftir af þessum reglum? Af því að það getur enginn maður fært fram trúverðug rök fyrir því að Ísland þurfi að vera hluti af þessari sameiginlegu orkutilskipun þó að við séum og meðan við erum algerlega einangruð eining í þessum efnum, truflum ekki viðskipti með rafmagn í Evrópusambandinu sem slíku á einn eða neinn hátt. Ég held að menn hljóti að sjá að það hefur engin áhrif í þessu samhengi á samkeppnishugsunina í Evrópusambandinu úti á meginlandinu þó að þessi litli agnarsmái, landfræðilega einangraði raforkumarkaður hér fái að viðhalda því skipulagi sem menn hér á Íslandi telja sjálfir að sé hagkvæmast.

Undanþágur eru auðvitað þekktar í þessum efnum og Íslendingar hafa a.m.k. tvær sem er nærtækt að vitna til. Við fengum undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins með viðskipti með gas. Það var auðvitað augljóst mál að við áttum ekki mikið erindi inn í slík viðskipti, hér er enginn gasmarkaður, engar gaslagnir og rafmagn ekki framleitt með gasi eða annað í þeim dúr sem gaf minnsta tilefni til þess að við værum undir þessa tilskipun seldir og menn féllust á að auðvitað ætti Ísland að fá undanþágu frá henni, vera í friði fyrir henni. Og núna nýlega komu fréttir af því, og var nú ekki lítið gert með það, að Ísland hefði fengið undanþágu frá tilskipun eða reglum á sviði flugmála sem varðaði flugöryggi og eftirlit með flugi innan lands. Ég hef ekki nákvæmlega á reiðum höndum hvað þarna var á ferðinni, hef ekki satt best að segja haft tíma til að kynna mér það ofan í kjölinn. En svo mikið er víst að þessu var slegið upp og talað um að þetta sparaði Íslendingum jafnvel allt að 800 milljónum, ef ég man rétt, sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta stóð í blöðum. Menn töldu einmitt að þarna hefði verið vel að verki staðið, menn hefðu unnið heimavinnuna sína og hefðu þarna tryggt Íslandi undanþágu sem væri mikið hagsmunamál fyrir okkur.

Bíddu, er þá ekki hægt að reyna það í þessu tilviki? (Iðnrh.: Innri markaðurinn.) Innri markaðurinn, segir hæstv. ráðherra. Ja, mér er bara alveg nákvæmlega sama. Ég held að það væri mjög lærdómsríkt og spennandi að senda ríkisstjórnina í svona leiðangur og segja: Alþingi hefur ákveðið að þetta sé svo arfavitlaust að við látum ekki bjóða okkur þetta og sendum stjórnvöld okkar til viðræðna við ykkur um um það að við fáum varanlega undanþágu. Þó svo að fullur sigur ynnist nú ekki í því máli en kannski einhver lítils háttar sigur, t.d. það að við fengjum visst svigrúm til að hafa hlutina öðruvísi en meginreglurnar kveða á um þá gæti það verið nokkurs virði. Það væri jafnvel mjög lærdómsríkt að senda menn í þennan leiðangur þó að niðurstaðan yrði enginn árangur. Það væri lærdómsríkt hvað varðar samskiptin við Evrópusambandið.

Ber t.d. að líta svo á að ef menn hafi einu sinni hrökklast til að staðfesta tilskipun og þó að í ljós komi að hún hafi mjög skaðvænleg áhrif, eigi alls ekki við, valdi mönnum, þegar í reynd er farið að skoða hvað það þýðir að bregðast við henni, miklum vandkvæðum, þá fái menn ekkert í því gert? Ég held að það væri gott að vita það. Menn mundu þá kannski hafa meiri vara á sér áður en þeir tækju við hverju sem er á færibandi og rúlluðu því hérna í gegnum þingið.

Þá kem ég að því, frú forseti, að auðvitað er þetta mál alveg hroðalegt dæmi um andvaraleysi manna, ekki bara stjórnvalda, sem ég tel að hafi auðvitað staðið linkulega og illa að því að berja ekki í borðið strax á upphafsferli þessa máls og segja: Nei, þetta á ekki við Ísland og hentar okkur engan veginn og við viljum fá undanþágu.

Stjórnmálaheimurinn var með einni undantekningu algerlega andvaralaus í þessu máli og það er alveg ástæða til að rifja það aðeins hér upp að á vordögum rétt fyrir síðustu aldamót, nú man ég ekki nákvæmlega hvert árið var, 1999 eða 2000, kom fyrst fram till. til þál. um að falla frá svonefndum stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka upp þessa tilskipun Evrópusambandsins inn í EES-réttinn. Þá reyndum við nokkrir hér á þingi að vekja athygli manna á því hvað þarna væri að gerast og hvort það væri virkilega þannig að menn hefðu engar ,,skrúplur`` yfir því að skella þessu yfir Ísland. Reyndar hafði hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson reynt strax frá því að þessi tilskipun var í vinnslu innan Evrópusambandsins á tíunda áratug síðustu aldar að vekja athygli manna á því hvað þarna væri að gerast og spurði út í það. En það fékk auðvitað engar undirtektir og menn voru steinsofandi í öllu kerfinu. Og það fékk engar undirtektir þegar við lögðumst gegn því að fallið yrði frá stjórnskipulegum fyrirvara, sem auðvitað hefði skapað á því stigi málsins miklu betri stöðu fyrir okkur að reyna að semja um undanþágur o.s.frv. M.a.s. fulltrúar flokka og þingmenn sem seinna hafa vaknað upp við vondan draum sýndu þá engin merki þess að þeir hefðu kveikt á málinu.

Það er auðvitað búið að vera broslegt núna á síðustu missirum, mörgum árum eftir að þetta ferli fór af stað, að vakna þá upp við vondan draum menn eins og hæstv. núv. dómsmrh. Björn Bjarnason, að vísu þá staddur handan Vonarstrætisins í borgarstjórn Reykjavíkur, og fer að ræða um það að menn hefðu auðvitað átt að reyna að fá undanþágu frá þessu. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mun hafa viðhaft svipuð ummæli hér einhvern tíma. Varaformaður Samf. og varaþingmaður, frú Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði þetta sama núna í haust og einhverjir fleiri samfylkingarmenn, sem að vísu tala ekki daglega um að við eigum að semja okkur undan Evrópureglum. En það gerist þó að menn þar eru ekki alveg sannfærðir um að allt sé sjálfkrafa 100% gott sem kemur frá Evrópusambandinu. Það er gott að vita.

En svona hefur þetta gengið til, því miður, og ég held að það væri ágætt fyrir menn að taka þessa sögu saman og hún mætti verða mönnum til ákveðins lærdóms í því að auðvitað verðum við að taka það alvarlega þegar í undirbúningi eru reglur sem seinna rekur á fjörur okkar í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og verða að bindandi hlutum hér fyrir okkur nema við náum að hafa áhrif á þau eða semja okkur undan þeim. Við eigum að taka það alvarlega og stjórnkerfið hér er mjög veikt í þeim efnum, Alþingi er mjög veikt. Það er búið að ræða það af og til hér á undanförnum árum að þingið eigi kannski eins og einn fulltrúa í Brussel til að standa vaktina svona á einhverjum sjálfstæðum forsendum fyrir þingið, að utanrmn. verði efld eða stofnuð hér Evrópunefnd til að fjalla um þessi mál sérstaklega. Síðan er ekkert gert, ekki neitt. Þetta er nefnt svona á eins, tveggja ára fresti og ekkert gert. Litla stjórnarráðið í Brussel er auðvitað umtalsverð eining, þar eru flest ráðuneyti komin með starfsmenn, heila og hálfa og sum jafnvel fleiri en einn, þannig að það er að verða til ein af myndarlegri deildum kansellísins þarna niðri í Brussel. En auðvitað þyrfti t.d. Alþingi sjálft að vera þarna með viðveru og það hefur verið nefnt að sveitarfélögin hafa verið tiltölulega utan garðs í því að fylgjast með þessum málum og jafnvel mætti færa fyrir því rök að stjórnmálaflokkarnir eða þingflokkarnir þyrftu að hafa einhver sjálfstæð tengsl þarna niður eftir til þess að geta staðið vaktina. Hver sem afstaða okkar er til framtíðarfyrirkomulags samskipta við Evrópusambandið þá er auðvitað óraunsætt annað en að horfast í augu við mikilvægi þess að menn vandi sig og taki þá hluti alvarlega sem þar eru á ferðinni og hafa á okkur mikil áhrif.

Ég ætla svo að segja hér, forseti, um málið almennt, áður en ég sný mér að því að mæla beint fyrir efni brtt. sem ég flyt við þetta frv. ásamt brtt. við tvö önnur frumvörp sem hér eru á dagskrá og verða til umræðu á eftir og lúta að jöfnun raforkuverðs og skipulagi flutninga, að það er enginn vafi á því í mínum huga að það mun leiða til hærra raforkuverðs á Íslandi að við séum nú þvinguð til þess að taka upp þetta markaðsvæðingarfyrirkomulag raforku að evrópskri fyrirmynd, ég er alveg sannfærður um það. Þá á ég ekki bara við hluti af því tagi sem menn hafa haft áhyggjur af eins og hér á þéttbýlissvæðunum að þeir t.d. vegna flutningsjöfnunar, sem áður var áformað að hafa innan kerfisins, geti lent í því að það hækki eitthvað lítils háttar raforkuverðið hjá þeim. Nei, ég er að tala um meðaltalið, ég er að tala um raforkuverð til notenda í landinu almennt. Það mun verða hærra vegna þessara breytinga, það er algerlega borðleggjandi að mínu mati.

Hvers vegna mun það hækka? Jú, af því að nú er verið að innleiða hér í áföngum arðsemiskröfur og sú hugsun svífur yfir vötnunum að í framtíðinni fari eigendur fyrirtækjanna að líta á þetta eins og hver önnur viðskipti í hagnaðarskyni, atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði, og að menn eigi að draga sér arð af eign sinni út úr fyrirtækjunum. Og það er auðvitað út af fyrir sig eðlileg hugsun ef menn ætla að taka þessa almannaþjónustu, þessa veitustarfsemi sem þetta er í eðli sínu, og færa hana yfir í hið hefðbundna samkeppnisatvinnulíf þar sem menn gera yfirleitt kröfur um það að þeir fái arð af fjármunum sínum í þessum fyrirtækjum. Arðurinn verður því greiddur af einhverjum, er það ekki? (Iðnrh.: Hræðilegt.) Hræðilegt, segir hæstv. ráðherra gleiðbrosandi yfir þessu öllu saman. Það er svo gaman hjá Framsókn að markaðs- og einkavæða raforkumarkaðinn á Íslandi. (Gripið fram í). Hæstv. ráðherra hefur ævinlega farið í sín fínustu föt og verið hér eins og sólskinsbros --- og í gulum blússum gjarnan --- til þess að fylgja því eftir þegar hún kemur að ræða um markaðs- og einkavæðingu raforkumálanna á Íslandi.

[10:00]

Þegar frá líður mun þetta verða þannig og við það skal ég standa og sanna að það er verið að taka hér ákvörðun um að færa þetta af þeim grunni að um sé að ræða samfélagsþjónustu, veitustarfsemi yfir í bisness. Það er mikil grundvallarbreyting og það er barnaskapur að átta sig ekki á því. Það hefur alls staðar haft grundvallarbreytingar í för með sér þegar menn taka starfsemi af þessu tagi og flytja hana til, úr hinu félagslega samhengi samfélagsþjónustunnar, almannaþjónustunnar, sem ekki er hugsuð í ábataskyni fyrir eigendur sína, heldur sem þjónusta, heldur sem skyldur. Þannig hefur þetta verið hingað til eða fram undir þetta af hálfu sveitarfélaganna, sem hafa ekki byggt upp veitur til að dreifa rafmagni eða leiða vatn í hús með því hugarfari að það væri bisness sem þau ætluðu að græða á. Nei, þetta hefur verið þjónusta við íbúana, skyldur sem sveitarfélögin hafa talið að þau hefðu á sínum herðum.

Auðvitað var sama hugsun að baki í grunninn hjá ríkinu þegar það var að byggja upp orkukerfið í landinu, að sjálfsögðu. Það var ljós og hiti, það var að gera mannlífið í landinu betra, þetta var hugsað út frá fólkinu sem nyti þjónustunnar en ekki út frá eigandanum sem ætlaði að hafa tekjur af öllu saman.

Í öðru lagi, frú forseti, mun verða umtalsverður kostnaður samfara þessum breytingum, það vitum við öll, það er óumflýjanlegt. Það þarf heilmiklar aðgerðir til að koma þessu nýja fyrirkomulagi fyrir, það mun kosta sitt, það er alveg ljóst, það viðurkenna menn. Menn hafa verið að leika sér þar að tölum og ég ætla ekki einu sinni að hafa þær eftir en maður hefur heyrt háar tölur, hundruð milljóna og þó oftar milljarða sem þarna verði á ferðinni þegar upp er staðið.

Í þriðja lagi, og ekki er það minnst um vert, það mun verða heilmikill eftirlits- og rekstrarkostnaður samfara þessu sem ekki fellur til í einföldu kerfi þar sem þetta er ein heild innan eins fyrirtækis og menn eru ekki að berjast um í þessari uppskiptingu og þessari málamyndasamkeppnismarkaðsvæðingu sem hér er á ferðinni.

Hvað mun allt eftirlitið sem Orkustofnun er að taka á sig og verið er m.a.s. að gera ríkari kröfur um hér að hluta til í brtt. iðnn. --- og geta verið full rök fyrir --- en hvað mun það kosta? Hvað verður Orkustofnun orðin stórt batterí? Þó að Þorkell Helgason sé góður að reikna þá mun hann ekki standa undir þessu öllu einn, það þarf sennilega eitthvert lið með honum. (KHG: Þetta verða ekki margir starfsmenn.) Þetta verða ekki margir starfsmenn, nei, en hver hefur reynslan orðið annars staðar frá?

Auðvitað er þetta allt saman meira og minna til málamynda hér og sýndarmennska og eins og hver annar argasti brandari að vera að tala um þetta sem einhvern samkeppnismarkað --- með ríki, Reykjavíkurborg og Akureyri og Hitaveitu Suðurnesja. Það er nú meiri samkeppnismarkaðurinn. Það er svo úti í hafsauga að hér séu í raun og veru efnislegar forsendur fyrir raunverulegum virkum samkeppnismarkaði nægjanlega margra sjálfstæðra aðila til þess að þetta verði eitthvað. Nei, nei, en móverkið verður að líta þannig út. Það á að heita svo að þetta sé samt svona voðalega flott samkeppnisumhverfi sem þeir eru í þarna, Friðrik Sophusson og Alfreð og hvað heitir hann þarna hjá Hitaveitu Suðurnesja? (Gripið fram í.) Já. Þetta er nú alveg gífurlegur samkeppnismarkaður.

Nei, auðvitað er þetta allt einn brandari. En kerfið verður að fara í þennan farveg og það þarf eftirlit og það þarf reglur og það þarf auðvitað að standa undir því.

Niðurstaðan verður því sú að mínu mati, frú forseti, að raforkuverðið í landinu mun hækka og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að afhendingaröryggi í raforku muni minnka. Það verður þá uppskeran sem menn hafa út úr þessu brölti.

Hvernig hefur svona tilraunastarfsemi gefist annars staðar? Ég hef svo sem reynt að ræða það áður við hæstv. ráðherra að það væri fróðlegt að fara yfir það og reyna að taka eitthvert mark á því og læra eitthvað af því hvernig þetta hefur gengið í Kaliforníu, á austurströnd Bandaríkjanna, í sunnanverðri Skandinavíu, í Bretlandi, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi. Er þetta glæsilegur árangur af þessu brölti nýfrjálshyggjunnar sem auðvitað er að þvinga þetta í gegn, fjármagnseigendur heimsins, sem vilja komast inn í þessa þjónustu til að græða á henni af því að þá vantar meira olnbogarými? Þeir eru búnir að fullnýta möguleika sína í að ávaxta fjármagnið í hinum hefðbundna bisness og hvert er þá haldið? Jú, þá er sjónum beint að almannaþjónustu og velferðarkerfinu og þangað leitar nú hið gráðuga fjármagn og þar ætlar það sér aukið olnbogarými og aukinn arð á næstu árum.

Reynslan af þessu er dapurleg. Það er meira og minna alls staðar reglan að þetta hefur leitt til hækkunar verðs og verri stöðu neytenda. Á köflum hafa menn í krafti hinnar náttúrulegu einokunar sem þessi fyrirbæri bjóða upp á tekið sér óhugnanlegan arð út úr kerfunum á stuttum tíma. Afhendingaröryggi hefur mjög víða minnkað, menn hafa farið að takast á við stórfellt rafmagnsleysi og ýmsa óáran, sem er rakin beint til hluta sem tengjast þessum kerfisbreytingum, og menn standa víða frammi fyrir því að græðgi eigendanna, sem eru komnir í aðstöðu til að taka sér arð út úr rekstrinum, er svo mikil að menn sjást engan veginn fyrir. Menn eru svo skammsæir í þeim efnum að þeir vilja græða mikið og græða strax, og hvað gera þeir? Menn halda öllu viðhaldi í lágmarki og ganga jafnvel svo langt --- eins og dæmin frá Skandinavíu sanna, það þarf nú ekki lengra, hæstv. ráðherra þekkir til í Noregi --- að menn gefa sér ekki tíma til að fylla uppistöðulón eða safna í sarpinn. Menn keyra kerfið svo hart fram til að ná arði hratt út úr því að menn reka það á lágmarksöryggi, t.d. hvað varðar forða, og fá það auðvitað í hausinn þegar orkuþörf vex umfram áætlanir að það verður skortur og neytendurnir þurfa stundum að taka á sig gríðarlegar hækkanir í toppum sem ganga yfir, þar sem orkuverð er síbreytilegt eins og oftast fylgir innleiðingu þessara markaða, eins og gerðist með raforkuverð í Skandinavíu og hefur ítrekað gerst á undanförnum árum.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ekki ljósið í þessu, frú forseti, hvað menn ætla að vinna með þessu. Mér finnst það barnalegt þegar menn koma og fara að tala um það hvað þetta sé nú allt saman óskaplega gott, eins og ég hef heyrt haft eftir hæstv. iðnrh. fyrir fram, hún er farin að taka ánægjuna út fyrir fram af því hvað þetta verði gott. Eigum við nú ekki að bíða og sjá til hvernig gengur, hvort þetta reynist nú einhver mikil blessun fyrir okkur að leggja hér af stað í átt til þessarar markaðs- og einkavæðingar þessarar veitustarfsemi, þessarar almannaþjónustu, sem auðvitað á áfram að skilgreina þetta?

Síðan finnst mér alltaf að menn skauti svo ótrúlega létt yfir þá staðreynd að hér er um náttúrulega einokunarstarfsemi að ræða. Hinar efnislegu aðstæður, fýsísku aðstæður valda því að það er engin glóra í að hafa margar rafmagnslínur hlið við hlið og tengja inn í húsin eða fyrirtækin til þess að keppa í þeim efnum. Þetta er ekki eins og flutningabílar sem geta bara komið eftir veginum frá mismunandi fyrirtækjum og boðið þjónustu sína. Nei, það er bara ein leiðsla inn í húsin, eitt flutningakerfi.

Þá lenda menn í þeim ósköpum öllum að fara að stýra markaðsvæddri starfsemi sem býr við náttúrulegar einokunaraðstæður. Menn viðurkenna það auðvitað: Jú, það er auðvitað rétt, menn geta ekki haft þetta alveg frjálst --- því þá geta menn okrað glórulaust af því að þeir eru í einokunaraðstöðu gagnvart kúnnanum --- þá setja menn svona kerfi. (Gripið fram í.) Hvað er hv. þm. að segja? Er hv. þm. Guðlaugur Þór eitthvað órólegur? (Gripið fram í: ... einkavæðingu á rafmagninu.) (Gripið fram í: Má ég tala við ...) Ég er með orðið hér, frú forseti, ef hv. þm. hefur kannski hugsað sér að taka tillit til þess. En ég sé að hv. þm. er mjög órólegur og gengur hér um og kíkir á klukkuna í ræðustólnum og horfir á úrið sitt þannig að ef það er hægt að aðstoða hv. þm. þá þætti mér vænt um að forseti gerði ráðstafanir til þess.

Ég held, frú forseti, að menn ættu að umgangast það af svona mátulegri hógværð þegar þeir leggja upp í leiðangur af þessu tagi að þá er nú ekki sjálfgefið að hann skili mönnum mikilli farsæld. Ég hef ákaflega litla sannfæringu fyrir því að það eigi t.d. eftir að reynast dreifðum byggðum Íslands mikið gæfuspor að halda inn á þessa markaðs- og einkavæðingu í raforkumálunum. Ég óttast að það muni, eins og stundum endranær, verða þau sem draga styttra stráið þegar upp verður staðið og að á undanhaldi verði öll sú hugsun t.d. að orkulindirnar séu sameiginleg auðlind sem landsmenn allir án tillits til búsetu eiga að njóta góðs af og hafa jafnan rétt til. Sú hugsun er mjög veik og á miklu undanhaldi í þessari lagasmíð sem hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir og kem ég að því síðar þegar við ræðum hið dæmalausa frv. um svokallaða jöfnun raforkuverðs sem lagt var hér fram af ráðherrunum, sem var auðvitað með miklum endemum hvernig var orðað. Það byggði á því að ef Alþingi skyldi nú detta í hug að setja peninga í að jafna raforkuverðið þá skyldi gera það svo og svo. Það er auðvitað alveg kostulegt.

Nei, auðvitað er verið að ýta út í raun og veru hinni félagslegu og byggðalegu hugsun sem hefur legið að baki, almannaþjónustuhugsun sem hefur legið að baki þessari starfsemi í landinu undanfarin ár og hvað sem hver segir þá verður ekki fram hjá því vikist.

Ég vísa t.d. í umsögn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem iðnn. fékk og henni fylgdi sérálit fulltrúa þessara aðila í nefndinni stóru. Þetta er vel unnin umsögn og á þessum bæjum hafa menn skoðað hlutina. Það hefur tekist mjög breið samstaða með þessum stóru heildarsamtökum launamanna í landinu og menn vitna til alþjóðlegrar þróunar, til þeirra hugmynda sem nú eru sem betur fer ræddar t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og lúta að því að skilgreina þessa hluti sem grundvallarauðlindir og í raun og veru mannréttindi, að menn hafi aðgang að vatni og orku og öðru slíku.

Ég held að það væri tímabært að taka þá hluti á dagskrá hér, og ég vil leyfa mér hér aðeins að vitna í umsögn ASÍ og BSRB, frú forseti, stuttlega áður en ég lýk máli mínu, en þar segir t.d.:

,,Í upphafi skal tekið fram að full ástæða er til þess að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa ekki tryggt Íslendingum undanþágu frá tilskipun 96/92 EB. Fullljóst er, að landfræðileg lega Íslands útilokar bæði heimili og fyrirtæki frá því að geta tekið þátt í raunverulegum innri markaði með raforku. Með raforkulögunum sem sett voru á síðasta ári og þessu frv. er engu að síður verið að umbreyta öllu raforkukerfi landsmanna til þess eins að uppfylla þessa tilskipun, án þess að möguleiki sé á að gera sér nægjanlega grein fyrir tæknilegum og efnahagslegum afleiðingum þess.``

Þessi orð eru eins og út úr mínu hjarta töluð. Ég held að þau séu kjarni málsins. Þau segja í raun og veru allt sem segja þarf um þetta. Þetta er bara skot út í myrkrið af því að menn verða að uppfylla þessa tilskipun sem hefur engin landfræðileg eða efnisleg tengsl við aðstæður á Íslandi.

Síðan segir í þessu séráliti:

,,Afstaða ASÍ og BSRB til þessa máls byggist á þeirri grundvallarsýn að vatns- og gufuorka sem nýtist til raforkuframleiðslu sé auðlind sem allir landsmenn eigi rétt á að njóta sameiginlega og með sem jöfnustum hætti. Lög sem snerta nýtingu þessarar auðlindar verða því að taka mið af þessu grundvallarsjónarmiði.``

Þetta tek ég undir, frú forseti.

Að síðustu ætla ég svo að mæla fyrir brtt. á þskj. 1715 sem ég flyt við þetta frv. hér um breytingu á raforkulögum. Þar er ósköp einfaldlega farin sú leið í þessum brtt., frú forseti, og ég fullyrði að sú leið er vel fær og væri að mínu mati langhyggilegast að hún yrði farin, að við fellum brott, eins og 1. töluliður brtt. gerir ráð fyrir, 1.--10. gr. frv. Þær fjalla allar um nánari útfærslu á því móverki sem hér á að setja upp og er verið að reyna í áföngum að troða inn í lög á Íslandi vegna orkutilskipunarinnar. Við frestum síðan gildistöku III. kafla gildandi raforkulaga. Gildistaka þess kafla var höfð aftar heldur en laganna að öðru leyti einfaldlega til að horfast í augu við þá staðreynd að menn voru ekkert undirbúnir eða tilbúnir með þetta þegar raforkulögin voru sett vorið 2003, og hvað gerðu menn þá? Jú, menn settu inn einhverja kafla sem engan veginn gátu gengið upp en sögðu: Þeir taka ekki gildi fyrr en 2004. Nú á enn að fresta gildistöku þessa kafla og ég legg til að það verði þá haft að í stað 1. janúar 2005, eins og segir í a-lið 11. gr., verði gildistöku III. kafla raforkulaganna frestað til 1. janúar 2008. Það gefur ærið svigrúm til þess að takast á við það sem á eftir kemur í brtt. í 4. tölulið.

Þar er lagt til svohljóðandi, með leyfi forseta:

,, Ríkisstjórnin skal þegar að lokinni samþykkt laga þessara leita eftir viðræðum við Evrópusambandið um að Ísland fái varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Ekki skulu tekin frekari skref í átt til markaðsvæðingar íslenska raforkukerfisins meðan slíkar viðræður fara fram við Evrópusambandið um framhald málsins.``

Sem sagt, brtt. eru einfaldar, þær fella í raun og veru brott öll ákvæði frv., sem verða þar með óþörf, fresta gildistöku III. kaflans enn um nokkurt árabil og leggja ríkisstjórninni þær skyldur á herðar að fara í leiðangur viðræðna við Evrópusambandið um að Ísland fái varanlega undanþágu frá þessum ákvæðum sem ekkert erindi eiga inn í íslenska löggjöf.