Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:12:11 (9360)

2004-05-28 12:12:11# 130. lþ. 130.29 fundur 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv. 98/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Nokkur orð um frv. sem við erum að ræða, jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Ég sagði við 1. umr. að þetta væri frv. mér að skapi þar sem jafna á í landinu þann kostnað sem fólk verður fyrir. Við erum að fjalla um að jafna kostnað við raforku í dreifbýli sem á þó mest við um bændur í þessu tilfelli. Eins og komið hefur fram þá kemur þetta fram í umsögn fjmrn. um frv., með leyfi forseta:

,,Kostnaðaráhrif af lögfestingu frumvarpsins munu þannig ráðast í fjárlögum hvers árs. Ríkisstjórnin hefur fjallað um málið og markað þá stefnu að veitt verði að hámarki 230 millj. kr. framlag til þessara niðurgreiðslna.``

Ég vil nefna þessa upphæð hér vegna þess að ég spurði fulltrúa iðnrn. að því á fundi iðnn. og það kom fram hjá Orkustofnun að þetta væri ekki mjög áreiðanleg tala, 230 millj., hún gæti verið hærri. Ég vil segja það hér, virðulegi forseti, að það er algjör forsenda fyrir stuðningi Samf. við frv. eins og þetta hefur verið niðurneglt hér, að hámarki 230 millj., og ef satt reynist að mati Orkustofnunar að þetta séu 260, 270 eða 300 millj. eða hvað það er þá verði gengið í að tryggja það fjármagn í fjárlögum. Það er algjört lykilatriði og ég vil láta koma fram hér vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að niðurgreiðslan í þessu kerfi öllu sem við erum að breyta eða bylta eins og við fjölluðum um í morgun komi af fjárlögum en sé ekki tekin af öðrum notendum, hún komi beint af fjárlögum til þess að jafna raforkukostnaðinn í dreifbýli sem er eins og ég segi er mest til bænda.

Ég gerði athugasemdir við upphaf 3. gr. við 1. umr., virðulegur forseti, þar sem er segir: ,,Ef ákveðið er í fjárlögum o.s.frv.`` Mér finnst sú breyting sem hér er lögð til af iðnn. vera til bóta: ,,Greiða skal niður ... kostnað`` o.s.frv. Þessi tala er auðvitað komin inn og það mun ganga mikið á ef menn fara eitthvað að krukka í hana. Þess vegna er mikilvægt að það komi líka fram, virðulegi forseti, vegna þess að í umsögn frá einum raforkuframleiðandanum var lögð til sú leið að þessar niðurgreiðslur kæmu beint til fyrirtækjanna en kæmu ekki til neytenda. Það var niðurstaða iðnn., sem betur fer, að það komi fram á orkureikningi þeirra notenda sem fá niðurgreiðslu á rafmagni hver niðurgreiðslan er. Ég tel það afar mikilvægt og skapa stjórnvöldum það aðhald sem þarf, sitjandi stjórnvaldi, að vera ekki að krukka í þessa tölu og freista þess að lækka hana. Eins og kom fram í aðvörunarorðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er auðvitað mjög auðvelt fyrir ríkisstjórn ef hún lendir í einhvern tíma í kröggum með sín fjárlög að skera hana niður. En ég tek það skýrt fram að það er gott að það aðhald komi þá strax til notenda og skapi þann þrýsting sem þarf.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, vegna þess að ég spurði að því í morgun en hæstv. iðnrh. er farin úr húsinu, þurfti að bregða sér frá, að ég hef alla tíð litið þannig á og mig minnir að ég hafi líka spurt fulltrúa iðnrn. að því á fundi í iðnn. hvort ekki sé alveg kristaltært að sú upphæð, 850 millj., sem nú er á fjárlögum og varið er til niðurgreiðslna almennt á nokkrum svæðum til rafhitunar, standi áfram í fjárlögum og verði ekkert krukkað í hana heldur.

Virðulegi forseti. Þetta er örstutt yfirferð mín á þessu frv. sem eins og ég segi er mér mjög að skapi og mættu koma fleiri frv. inn til jöfnunaráhrifa í landinu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það væri betra ef fleiri slík atriði væru inni. Ég ætla ekki að lengja umræðuna núna um aðrar jöfnunaraðgerðir, ég ræddi þær lítils háttar í nótt á öðrum sviðum og ætla ekki að gera það nú. En þessi tvö atriði, upphæðin á fjárlögum og heildarupphæðin til niðurgreiðslna, hvort sem það eru 230 eða 250 millj., eru forsenda fyrir stuðningi okkar við frv., að menn negli sig ekki svo niður að upphæðin 230 millj. verði óbreytanleg ef Orkustofnun kemst að þeirri niðurstöðu að hún verði kannski 260 eða jafnvel 300 millj.