Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:19:11 (9362)

2004-05-28 12:19:11# 130. lþ. 130.30 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv. 58/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Frú forseti. Iðnn. fékk til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Í frv. er mælt fyrir um það að hitaveitur geti fengið styrk sem nemur allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu í stað fimm ára niðurgreiðslu sem er í gildandi lögum.

Í öðru lagi er afmörkuð sú fjárhæð sem samtals á hverju ári getur runnið til styrkveitinga til hitaveitna. Sett er það hámark að aldrei megi fara meira en 20% af heildarfjárveitingu ársins til þess.

Í þriðja lagi er lagt til að allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna renni til sérstaks jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum. Það er því verið að skjóta styrkum stoðum undir það rannsóknarátak sem þegar hefur skilað töluverðum árangri og menn gera sér þær vonir að hægt sé að ná enn meiri árangri á næstu árum sums staðar á landinu með því að leita að jarðhita. Til þess að það geti gengið þykir rétt að leggja til að árleg fjárveiting verði veitt í því skyni.

Iðnn. hefur lokið umfjöllun um málið og skilað af sér svofelldu nefndaráliti, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti. Þá hafa umsagnir borist frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Norðurorku hf., Svalbarðsstrandarhreppi, Orkuveitu Húsavíkur, Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skagafjarðarveitum ehf., Samorku, samtökum raforku-, hita- og vatnsveitna, Byggðastofnun, Eyþingi -- Sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkustofnun og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Með frumvarpinu er ætlunin að hækka hámark stofnstyrkja til hitaveitna í átta ár en samkvæmt gildandi lögum er miðað við fimm ára niðurgreiðslur að hámarki. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að styrkir til niðurgreiðslu nái einnig til olíuhitunar eins og hitunar með rafmagni en það er breyting frá gildandi lögum. Loks er ráðherra fengin heimild til að verja til sérstaks jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og til nýrra hitaveitna.

Með setningu laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar voru lögfestar vinnureglur sem giltu í framkvæmd niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar. Í framsöguræðu við framlagningu frumvarpsins tók iðnaðarráðherra skýrt fram að ekki væri ætlunin að gera breytingar á þeirri framkvæmd sem verið hefði. Á fundum nefndarinnar hefur hins vegar komið fram að með lögfestingu reglnanna hafi orðið nokkrar breytingarnar á framkvæmdinni. Greiðslurnar miðast samkvæmt lögunum eingöngu við lögheimili og hafa því fallið niður niðurgreiðslur til þeirra sem reka heimili á fleiri en einum stað á landinu vegna atvinnu eða skólagöngu. Þá hafa einnig fallið niður greiðslur til þeirra sem eiga eignir þar sem ekki er heimilt að búa nema hluta ársins, t.d. vegna snjóflóðahættu. Nefndin telur því nauðsynlegt að leggja til breytingar á frumvarpinu með það að markmiði að heimila niðurgreiðslur til þeirra að nýju. Greiðslurnar miðast þó við að búseta sé á viðkomandi stað í nokkra mánuði en ekki eingöngu sumardvöl eða fáar vikur á ári.

Upplýst var fyrir nefndinni að það hefði reynst erfitt að framfylgja kröfunni um að eigendur íbúða þyrftu að sækja um niðurgreiðslurnar, enda hagsmunir þeirra ekki alltaf í húfi. Telur nefndin því rétt að rýmka heimildina þannig að umráðamaður íbúðar geti sótt um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði, t.d. leigjandi.

Leggur nefndin til rýmkun á ákvæði um niðurgreiðslur til kirkna og bænahúsa þannig að þær nái einnig til safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita.

Þá leggur nefndin til að beiðnir um styrki vegna jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum séu ekki bundnar við það að greinargerð um fyrirhugaða jarðhitaleit frá Orkustofnun þurfi að fylgja þar sem faglega ráðgjöf er unnt að fá hjá ýmsum aðilum og því eðlilegra að binda það ekki við Orkustofnun.

Þá leggur nefndin til að bætt verði nýju ákvæði við frumvarpið um að fyrir 1. október ár hvert skuli leggja fram skýrslu um ráðstöfun fjár samkvæmt lögunum vegna næstliðins árs og endurskoðaða áætlun greiðslna yfirstandandi árs og áætlun fyrir næstkomandi ár. Greina skal sundurliðað hve miklu fjármagni er varið til niðurgreiðslu húshitunar, stofnstyrkja hitaveitna og orkusparnaðaraðgerða. Með því munu liggja fyrir upplýsingar um heildarniðurgreiðslur og skiptingu þeirra á hverju ári sem auðvelda eftirfylgni og eftirlit með greiðslunum.

Loks leggur nefndin áherslu á að styrkveitingar til jarðhitaleitarátaks og til nýrra hitaveitna leiði ekki til lækkunar á raungildi niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Kristján L. Möller, Einar Karl Haraldsson, Sigurjón Þórðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Björgvin G. Sigurðsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.``

Breytingartillögurnar er að finna á þskj. 1718 og ég ætla að rekja þær aðeins nánar en fram kemur í nál. Þær eru í fjórum tölusettum liðum.

Í fyrsta lagi er lagt til að þrjár nýjar greinar bætist við frv. á undan 1. gr. Fyrsta viðbótargrein verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð. Umsækjandi þarf að staðfesta þörf sína til þess að halda fleiri en eitt heimili með opinberu vottorði eða öðrum gögnum sem Orkustofnun metur nægileg.``

Önnur viðbótargreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins þótt þar sé ekki föst búseta. Heimildin nær til þess að greiða niður orkumagn sem svarar til fjórðungs af því orkumagni sem niðurgreitt er vegna þeirra íbúða sem njóta niðurgreiðslna á grundvelli 1. mgr.

Kostnaður við hitun kirkna, bænahúsa trúfélaga, safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða.``

Þriðja viðbótargreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Í stað orðanna ,,Eigandi íbúðar`` og ,,eiganda`` í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Eigandi eða umráðamaður íbúðar, og: eiganda eða umráðamanni.`` --- Sem getur þá sótt um niðurgreiðslu.

Í 2. tölul. breytingartillagnanna er lagt til eftirfarandi:

,,Við 1. gr. Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Fyrir 1. október ár hvert skal leggja fram skýrslu um ráðstöfun fjár samkvæmt lögum þessum á næstliðnu ári. Einnig skal leggja fram endurskoðaða áætlun greiðslna yfirstandandi árs og áætlun fyrir næstkomandi ár. Greina skal sundurliðað hve miklu fjármagni er varið til niðurgreiðslu húshitunar, stofnstyrkja hitaveitna og orkusparnaðaraðgerða.``

Þriðja breytingartillagan er sú að í a-lið í 2. gr. frv., þar sem mælt er fyrir um að ráðherra sé heimilt að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarorku, er lagt er til að í stað orðsins ,,húshitunarorku`` komi: húshitunarkostnaði, og að brott falli orðið ,,Orkustofnunar``, þar sem segir að greinargerð Orkustofnunar skuli fylgja með beiðni um styrk, eins búið var að gera grein fyrir í nefndarálitinu.

Í fjórða lagi er gildistökuákvæði frv. breytt en lagt er til í frv. að það taki gildi 1. janúar 2004 en hér er lagt til að það taki gildi 1. júní 2004.

Með þessu eru gerðar nokkrar breytingar til bóta á þeim reglum sem tóku gildi með lögunum frá í hittiðfyrra auk þess að lögfesta það sem lagt er til í frv. Það eru þó nokkuð margar veitur í landinu þar sem áform eru um að stækka eða leggja í frekari fjárfestingar. Þær á eiga rétt á sem svarar fimm ára niðurgreiðslufé en geta nú fengið hærri fjárhæðir til þess að greiða niður stofnkostnaðinn eða allt að átta ára niðurgreiðslufé. Það hefur í för með sér að fjárveitingar úr ríkissjóði eða af þessum lið fjárlaga aukast og til að það hafi ekki áhrif á þær niðurgreiðslur sem einstaklingar fá í dag er sérstaklega tekið fram í áliti nefndarinnar að það eigi ekki að leiða til þess, enda eiga þessar greiðslur til lengri tíma að leiða til sparnaðar hjá ríkissjóði vegna þess að með því að stækka hitaveiturnar falla niður greiðslur úr ríkissjóði beint til orkunotenda og ríkissjóður sparar þannig fé á móti. Þannig að þrátt fyrir að fjárveitingar úr ríkissjóði til einstakra framkvæmda hækki á það ekki að leiða til þess að draga úr styrkveitingu eða stuðningi ríkisins við þá raforkunotendur sem eru utan þeirra svæða. Það er sérstaklega tekið fram í áliti nefndarinnar og ég vil árétta það enn og aftur þannig að ekkert fari á milli mála í þeim efnum. Meðal annars til að ítreka það sjónarmið er lagt til að í lögin komi það ákvæði sem ég er búinn að gera grein fyrir að fyrir 1. október ár hvert verði lögð fram skýrsla um ráðstöfun fjár samkvæmt lögunum á næstliðnu ári.

Þær veitur sem vitað er um að eru að velta fyrir sér framkvæmdum eru í Grundarfirði, Skagafirði, Siglufirði, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðastrandarhreppi, Grenivík og Eskifirði. Á öllum þessum stöðum eru töluverð áform um stækkun á veitusvæðinu og ríkissjóður mundi þá styðja við bakið á þeim framkvæmdum. Þá eru ónefndar tvær stórar hugmyndir, annars vegar á Höfn í Hornafirði og hins vegar í Vestmannaeyjum, sem skiptir mjög miklu máli að ráðist verði í ef það reynist á annað borð hagkvæmt. Með þessu frv. er því skotið styrkari stoðum undir þau áform sem til lengri tíma lækka kostnað notenda á húshitun og dregur úr útgjöldum ríkissjóðs til þeirra hluta.

Ég vil árétta að verið er að færa hluti til fyrra horfs, að útvíkka heimildir til niðurgreiðslu annars vegar á húsnæði sem enginn á lögheimili í, og er rökstutt í breytingartillögunum hvers vegna það er gert, og hins vegar til þeirra fjölskyldna sem þurfa að eiga fleiri en eina íbúð, en um það eru allnokkur dæmi af ástæðum sem tilgreindar eru í breytingartillögunum, þ.e. vegna náms eða starfs. Ekki þykir eðlilegt að fella niður styrkveitingu eða niðurgreiðslu til þeirra íbúða eins og reyndin varð eftir lagasetninguna árið 2002. Það er því verið að færa það til fyrra horfs.

Loks vil ég árétta að líka er verið að færa til fyrra horfs með því að taka upp niðurgreiðslur til safna og félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita. Nefndin var sammála um að mæla með því við þingið að breyta lögunum þannig að þeir aðilar njóti eftirleiðis þeirra niðurgreiðslna sem þeir áttu kost á fyrir gildistöku laganna.