Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:45:03 (9394)

2004-05-28 14:45:03# 130. lþ. 130.11 fundur 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér á að fara að greiða atkvæði um nýjan samning milli ríkisins og kúabænda. Ég fagna því að sá áfangi hafi náðst þetta tímanlega þannig að framleiðendur, þeir sem starfa í þessari grein við úrvinnslu og neytendur viti hvað bíður þeirra á næstunni. Ég tel það tímamót að þátttaka ríkisins í þessum málum skuli vera að færast skref fyrir skref frá framleiðslutengdum þáttum til annarra grunnþátta sem ekki tengjast framleiðslu. Það mun virka á annan hátt til að styrkja byggð, búsetu og atvinnulíf í dreifbýli. Þetta er ekki auðveldur vegur að rata en þarna er þó alveg ný stefnumörkun. Ég fagna því að skrefið skuli stigið.

Ég tel mikilvægt að við búum okkur undir að styðja við landbúnað, fjölþætt atvinnulíf og búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins eins og hér er efnt til. Að sjálfsögðu hefði ég viljað sjá meira fjármagn í þessum samningi. Þetta er tækifæri fyrir ríkið til að koma að því að efla atvinnulíf og styrkja á landsbyggðinni eins og er svo oft talað um á þinginu. Þarna gafst gullið tækifæri til að leggja til aukið fjármagn en að sjálfsögðu gleðjumst við yfir þeim áfanga sem hér næst.