Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 15:28:15 (9400)

2004-05-28 15:28:15# 130. lþ. 130.35 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um tillögu til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

Á fund nefndarinnar komu fjölmargir gestir og enn fleiri skriflegar umsagnir bárust eins og getið er um á þskj. 1670. Ég held að óhætt sé að segja að nefndin hafi farið vel í þetta mál. Eins og nærri getur er jafnréttisáætlun til fjögurra ára mjög umfangsmikið mál og snertir flesta þætti þjóðlífsins. Nefndin fagnar sérstaklega uppsetningunni á þáltill. eins og hún kom frá hæstv. félmrh. Það er nýstárleg samsetning og auk nefndarinnar fögnuðu margir gesta hennar þeirri framsetningu.

Nefndin fjallaði mjög nákvæmlega um þessa ályktun og gerði nokkrar breytingar eða viðbótartillögur sem tíundaðar eru á þskj. 1670 í tíu liðum. Ég tel ekki ástæðu til að lesa þær upp en þær eru nokkuð fjölbreytilegar og ná yfir mörg svið. Ég held að óhætt sé að segja að þær geri lítið annað en að bæta ágæta tillögu sem lá fyrir nefndinni.

Ég vek athygli á því, forseti, að undir nál. skrifa allir hv. nefndarmenn í félmn. Auk mín skrifa undir það hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Guðjón Hjörleifsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar og Gunnar Örlygsson. Þá sat hv. þm. Ögmundur Jónasson fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann einnig samþykkur áliti þessu. Nefndin mælir með því að þál. verði samþykkt með þeim breytingum sem getið er um á áðurnefndu þingskjali.

Ég tel afskaplega merkilegt, virðulegur forseti, að nást skuli algjör samstaða innan nefndarinnar um jafnmikilvægt og umfangsmikið mál og jafnréttisáætlun er. Ég tel að í því felist líka mikil og sterk pólitísk skilaboð frá hv. Alþingi um að vilja fylgja eftir þeirri áætlun sem hér er til umræðu. Þetta eru skýr jafnréttisskilaboð sem koma frá hv. félmn. Ég tel það fagnaðarefni og þakka hv. nefndarmönnum í félmn. fyrir afskaplega vandaða vinnu. Málin voru rædd afskaplega vítt og einstaklega góð samstaða náðist um efnið sem var til umræðu.

Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara í smáatriðum yfir öll þau atriði sem ályktunin fjallar um né heldur þær breytingar sem nefndin leggur til og vísa enn og aftur til þskj. 1670. Nefndin mælir eins og áður segir einróma með samþykkt þáltill. með framangreindum breytingum.