Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:52:39 (9421)

2004-05-28 16:52:39# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. meiri hluta GHj
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. meiri hluta sjútvn. frá hv. þingmönnum Kristni H. Gunnarssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Guðlaugi Þ. Þórðarsyni, Hjálmari Árnasyni og Guðjóni Hjörleifssyni.

Breytingartillagan er við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 2. gr.

a. Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í engri tegund í krókaaflamarki skal viðmiðunaraflareynsla þó vera lægri en 100 kg miðað við óslægðan fisk.

b. Í stað ,,90%``, ,,50 lesta`` og ,,40%`` í 1. málsl. 2. tölul. 1. mgr. komi: 91%; 42,5 lesta; og: 45%.

c. Á eftir orðunum ,,allt að 20 lestum`` í 4. málsl. 2. tölul. 1. mgr. komi: í þorski.

d. Í stað ,,26. maí 2004`` í 4. málsl. 2. tölul. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. komi: 28. maí 2004.``

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir breytingartillögunum.

Í a-lið fá allir sem eru með aflamark undir 100 kg í tegundum í aflamarki, þar skal viðmiðunaraflareynsla aldrei vera lægri en 100 kg miðað við óslægðan fisk.

Í b-lið þá kom fram í nál. meiri hluta sjútvn. að reiknigrunnur gæti breyst og það er lagt til í breytingartillögunni. Breytingin er til að styrkja rekstrargrundvöll hjá þeim sem eru með viðmiðunarreynslu upp að 42,5 tonnum. Þeir sem eru með viðmiðunarreynslu umfram 42,5 tonn fá 45% í stað 50, en þeir hafa meira svigrúm og eru í ágætisrekstrarumhverfi með skip sín.

Niðurstaða breytinganna ef við förum í samanburð við upphafsútreikninga sem birtir voru á vef Fiskistofu, þá eru það 35 bátar sem lækka um 58,4 tonn, þar af eru fimm bátar með tæpan helminginn, eða um 28 tonn. 206 bátar fá hækkun upp á 696,3 tonn og 51 bátur stendur í stað. Þetta eru yfirleitt bátar sem eru með lágmarksúthlutun 15 tonn. Þetta er sameiginleg niðurstaða og tillaga sjútvrn. og fulltrúa Landssambands smábátaeigenda.

C-liðurinn skýrir sig sjálfur.

Í d-liðnum er verið að breyta dagsetningu frá 26. maí til 28. maí. Þarna er verið að taka tillit til allra báta sem eru í endurnýjun.