Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 17:27:23 (9427)

2004-05-28 17:27:23# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Við drógum okkar brtt. til 3. umr. og vildum gefa þeim þingmönnum sem ítrekað hafa lýst því yfir að þeir vilji eða vildu viðhalda þessu kerfi dagabátanna kost á því að velja á milli jafngildra kosta, þ.e. þess kosts sem ríkisstjórnin eða sjávarútvegsráðherrann og meiri hlutinn í sjútvn. núna, ætlar að bjóða upp á og þess kosts að viðhalda kerfinu. Og ég verð að segja að mér finnst að í meðferð þessa máls síðustu daga hafi það sannast með óyggjandi hætti hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Hér hefur forsvarsmönnum smábátaeigenda verið haldið upp á einhvers konar kjaftæði missirum saman. Þeir hafa verið með sóknardaganefnd í því að skoða möguleika á því að koma framtíðarkerfi á með sóknardagakerfi smábátanna og reynt með öllum ráðum að fá til þess nothæfan grunn. Sjútvrh. hefur aldrei gefið kost á því að skapa nothæfan grunn fyrir dagabátana. En svo þegar hæstv. sjútvrh. sá sér færi á því að koma á kvóta í þessu kerfi, þá var allt í einu hægt að finna aflagrunn sem var margfalt hærri en sá sem fyrir hefur verið í þessu kerfi. Ég fullyrði það og það er auðséð á allri meðferð málsins, að það hefði verið mjög auðvelt að finna flöt á samstarfi við smábátaeigendur og forsvarsmenn þeirra um kerfi til framtíðar sem hefði byggt á þeim aflagrunni sem hæstv. ráðherra er núna búinn að spila út til þess að búa til kvóta en hann var ekki útbær með það, nema í kvóta. Hæstv. ráðherra ætlaði aldrei að framlengja þetta kerfi. Það er fullyrðing sem ég get staðið við hvar sem er, því ferill málsins sýnir það svo ekki verður um villst.

[17:30]

Við höfum þess vegna lagt fram tillögu sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. málsins, sem gengur út á það að nota þennan aflagrunn sem hæstv. ráðherra er allt í einu tilbúinn að samþykkja að sé aflagrunnur þessa hóps, sem framtíðargrunn fyrir dagakerfi. Ég er algjörlega sannfærður um að það er hægt að stjórna veiði þessara báta innan þessa grunns svo lengi sem menn vilja gera það, vegna þess að hér er miðað við aflareynslu bátanna á fiskveiðiárinu 2002/2003 og það var ágætt ár í sögu afla þessara báta. Við gerum líka ráð fyrir því að viðmiðunin sem þeir hafa til þess að hægt verði að hreyfa til sóknargetu þeirra, verði tekin á fimm ára bili, þannig að sveiflurnar verði sem minnstar á möguleikum þeirra til afla. Það getur þess vegna alveg gerst, vegna þess að afli undanfarinna ára hefur verið meiri en menn hafa nokkurn tímann séð í þessu kerfi í veiðum með handfærum, þá getur það alveg gerst hvenær sem er að afli á sóknareiningu minnki svo mikið hjá þessum aðilum að ef okkar tillaga væri samþykkt, þá mundu þeir fá töluvert fleiri daga til að athafna sig.

Þannig er auðvitað eðlilegt að stýra sókn þeirra og ég vísa því algjörlega til föðurhúsanna þegar menn koma með útúrsnúninga af því tagi að við séum ekki að leggja til neinn botn í dagakerfið. Við erum auðvitað að leggja til sóknartakmarkanir sem væru eðlilegastar fyrir þennan bátaflota, ef það á að reyna að stýra sókninni. Auðvitað verða menn þá að geta haft breytilega daga, en það þýðir ekkert að miða við það kerfi sem var á, þar sem grunnur bátanna var 2.100 tonn og var aldrei annað en ávísun á það að úrelda dagana hjá þessum mönnum þangað til væri búið að svelta þá út úr kerfinu. Það var meiningin, þannig ætluðu menn að fara að þessu.

Þegar þessi niðurstaða er komin á borð alþingismanna, þá fer ekkert á milli mála hver ætlunin er. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að svona eigi menn ekki að standa að málum hér á hv. Alþingi. Rökin fyrir því að gera þetta, hvert eru þau sótt? Þau eru sótt til þeirra manna sem hafa kannski mesta hagsmuni af því að þessu verði breytt. Þá er ég að tala um fjárhagslega hagsmuni. Fulltrúar þeirra hafa mætt á fund sjútvn. Það er út af fyrir sig bara ágætt að fá að tala við slíka menn. En ef einhverjir eru vanhæfir til þess að ráðleggja mönnum hvað á að gera, þá eru það þeir sem hafa mestra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í því sem stendur til að ná fram. Þess vegna þurfa menn auðvitað að horfa á rök þeirra fyrir málinu með þeim gleraugum að þeirra hagsmunir eru einstaklingsbundnir og hagsmunir sem Alþingi á að hafa augun á, eru auðvitað almennir. Það eru hagsmunir byggðanna. Það eru atvinnuhagsmunir fólksins í sjávarbyggðunum, en það á ekki að horfa á hagsmuni einstakra aðila og jafnvel aðila sem hafa af því mjög verulegan fjárhagslegan ávinning að þessi breyting verði. En svona hafa refirnir verið skornir hér í sölum Alþingis í gegnum tíðina þegar rætt hefur verið um þessi mál.

Hér hafa riðið húsum menn sem hafa haft stórkostlegan ávinning af þessum lagabreytingum sem hafa farið fram í sölum Alþingis og á þá hefur verið hlustað. Það var hæstv. utanrrh. sem innleiddi það í íslenska pólitík, innleiddi það með algerlega nýjum hætti hvað það væri að hafa samráð við hagsmunaaðila. Þetta orðatiltæki festist í málinu þegar verið var að setja kvótakerfið á og átti í upphafi fyrst og fremst við að það væru menn að tala við LÍÚ, það var að hafa samráð við hagsmunaaðila. Það hafa menn svo sannarlega gert í gegnum tíðina og hlustað greinilega með báðum eyrunum á allt sem þaðan hefur komið. Og hvert hefur verið aðalstefið frá LÍÚ? Að það væri einsleitt kerfi í sjávarútvegi og allir væru undir því sama aflamarki og kvóta sem gildir hjá stóru skipunum. Þó svo þeir séu að kvaka svona til þess að samfélagið haldi að þeir séu á móti því sem verið er að gera hér, þá er verið að innsigla þeirra aðalkröfu í dag með þessu frumvarpi. Það er verið að loka kvótakerfinu endanlega og breyta því öllu í kvótakerfi af því tagi sem LÍÚ vill. Nú er bara eftir að klára síðustu hindrunina, sem er að sameina kerfi smábátanna og stóru skipanna.

Ég vil rifja upp hvað gerðist þegar kvótinn var settur á í upphafi og var settur á smábáta líka þegar þeir völdu í hið fyrsta sinni. Hvað varð um þann flota? Hann gufaði gjörsamlega upp. Ég ætla líka að benda mönnum á það að eyða í það örlítilli stund að velta því fyrir sér hvernig væri umhorfs í sjávarbyggðum landsins ef LÍÚ hefði fengið sinn vilja fram þá á hvern einasta bát og að gatið sem smábátarnir hafa orðið til í og þeirra aflaréttur hefði aldrei orðið til, en það var eitur í beinum þeirra LÍÚ- manna að það gat skyldi vera þarna. Allur sá floti, allur sá veiðiréttur sem er núna í aflakerfinu, þessu krókaaflamarki, og allur sá veiðiréttur sem núna er að verða til og flytjast yfir í það, segja má að hann hafi allur orðið til í gegnum gatið á kerfinu. Hvernig skyldi vera umhorfs í þessum sjávarbyggðum ef þetta gat hefði ekki verið á kerfinu? Ég er hræddur um að það væri ekki mikið um að vera í hinum ýmsu sjávarbyggðum ef þannig hefði verið hagað til.

Ég er að tala um þetta vegna þess að mér óar við þeirri framtíð sem ég sé fyrir mér núna í framhaldi af því að menn hafa náð sínu fram. Nýliðun í sjávarútvegi í hinu gamla kerfi af hinum smærri bátum, hver hefur hún verið? Hver hefur hún verið í grunnslóðaveiðiflota? Hver hefur hún verið í handfæraveiðiflota? Hún hefur engin verið.

Það sem mun gerast í kjölfarið á því að menn læsa kerfinu nú endanlega, er sú þróun sem varð með litlu bátana sem fóru inn í aflamarkskerfið. Aflarétturinn verður keyptur og seldur upp á stóru bátana í þessu kerfi sem er þarna fyrir ofan núna. Aflarétturinn hefur verið að hækka í verði sem þar ríkir, nálgast verðið, það kann að vera að verðið lækki eitthvað þegar þessi hópur kemur inn af því að það verði aukið framboð, ég er þó ekki viss um það, vegna þess að nú fara spákaupmennirnir af stað. Nú fara spákaupmennirnir af stað að kaupa aflarétt á verði sem er lægra heldur en í stóra kerfinu, vegna þess að þeir vita það að þegar nær dregur verði í hinu kerfinu, þá kemur að því að krafan um það að menn fái nú að fara á net og fái nú að haga sér eins og hinir, eins og þeir sem eru í aflamarkskerfinu, þá kemur hún. Þá munu menn eins og venjulega hlusta á einstaklinga, hagsmunaaðila, það verður samráð við hagsmunaaðila eins og það er kallað hér í sölum Alþingis, sem endar með því að kerfunum verður slegið saman.

Vegna eðlis kerfisins eins og það hefur verið í gegnum tíðina, og er, þá verður engin nýliðun í því. Við munum sjá mikla fækkun smábáta sem verða gerðir út af einhverju gagni, stærri bátarnir munu taka við aflaheimildunum og svo þegar stíflunni verður opnaður farvegur, þá mun veiðirétturinn streyma eins og hann hefur alltaf gert; upp til hinna stærri. Þá munu þessar litlu sjávarbyggðir og ýmsar þeirra sem við köllum nú bara þokkalega stórar, fá að sjá framan í það að það eru engir nýliðunarmöguleikar.

Ég vil meina það að á meðan menn taka ekki á því málefni sem mestu skiptir, sem eru atvinnuréttindi í sjávarútvegi og opna farveg sem er raunverulegt frelsi til útgerðar, sem hlýtur að vera fólginn í því ef menn stjórna fiskveiðum með takmörkunum, þá hlýtur veiðirétturinn alltaf verð, þá verða menn að búa til aðstæður þar sem menn standa jafnir gagnvart aflaréttinum. Hvernig er það hægt? Auðvitað með því að allir standi jafnir gagnvart því að fá úthlutað veiðirétti á einhvers konar markaði sem allir hafa jafnan aðgang að. Auðvitað á eigandi auðlindarinnar, sem er þjóðin sjálf, að sjá til þess að menn hafi sambærilega möguleika á því að fá til sín þessi réttindi. Ég mundi ekki óttast um grunnslóðarflotann ef hann gæti staðið jafnfætis stórútgerðinni um það að keppa um aflaréttindin.

Hv. þm. Kristinn Gunnarsson hélt því blákalt fram að það væri ekki meiri hluti fyrir því að viðhalda þessu kerfi. Það er auðvitað útúrsnúningur. Það liggur fyrir að í stjórnarandstöðunni er fullur stuðningur við það að viðhalda þessu kerfi. Og ef þeir sem hafa lýst því yfir að þeir vilji viðhalda kerfinu, ganga nú í lið með stjórnarnandstöðunni og styðja þessa tillögu okkar, þá get ég ekki betur séð heldur en prýðilegur meiri hluti sé fyrir því að hún verði samþykkt.

Mér finnst okkar tillaga vera skynsamleg. Hún mun auðvitað ekki breyta grundvallarvandanum í sjávarútvegi, því hann breytist ekki þó 5% af aflaréttinum séu sameiginleg og menn hafi frelsi til þess að róa í því kerfi og keppa bara sín á milli um heildarpottinn eins og raunveruleikinn verður ef menn stýra með sóknartakmörkunum. En þessi tillaga gefur möguleika á því að viðhalda sóknarkerfi og það skiptir máli upp á fiskveiðistjórnina. Hún gefur líka möguleika á því að passa upp á það að þessi ferill fari ekki í gang, a.m.k. ekki gagnvart þeim veiðiheimildum sem hér eru á ferðinni sem ég var að lýsa áðan.

Ég ætla nú ekki að halda mjög langa ræðu hér, hæstv. forseti, en ég vil þó segja það að mér finnst að hv. alþingismenn þurfi að fara að hugsa sinn gang. Það er ekki eðlilegt með hvaða hætti menn meðhöndla hér mál og á hverja er hlustað. Við höfum fengið yfirlýsingar frá byggðarlögum allt í kringum landið, þar sem menn vilja viðhalda dagakerfinu. Menn óttast byggðaáhrifin af þessari breytingu. Ég er sannfærður um það að byggðaáhrifin af þessari breytingu munu koma illa niður á norðvesturhorni landsins. Það er að mínu viti ekki nokkur vafi á því að þar mun mjög hratt draga verulega úr þeim flota sem hefur landað afla þar á sumrin. Menn mega illa við því að það dragi úr þeirri starfsemi sem hefur verið á sumrin á þessum svæðum.

[17:45]

Menn hafa svo sem gefið þessu ýmis nöfn og hagsmunaaðilarnir sem mættu hér á fund sjávarútvegsnefndarinnar útlistuðu það að eitt af aðalvandamálum þeirra væri að þeir gætu ekki fengið að róa allt árið. Þeir lýstu sínum aðstæðum. Ég skildi þær mjög vel. En ég skil hins vegar ekki hvers vegna menn sem vilja vera í útgerð allt árið binda sig við að vera á þessum flota. Ég er algjörlega sannfærður um að ef útgerðarmenn sem vilja róa allt árið og eru í þessu kerfi fá tækifærið sem við erum að bjóða upp á hér með þessari tillögu, þ.e. að bátar þeirra fái framtíðargrundvöll í dagakerfinu, þá þurfa þeir ekki að óttast það eitt augnablik að þeir geti ekki selt báta sína og flutt sig yfir í kerfi sem hentar þeim betur. Auðvitað eiga menn að gera það. Það er bara eðlilegur hlutur. Það er öfugmæli að halda því fram að nokkur maður sé fastur í þessu kerfi eða verði fastur í því ef undir það verða settir almennilegir fætur eins og við leggjum til að verði gert.

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki ástæða til þess að hafa ræðuna lengri, en ég harma það að menn skuli hafa komist að þessari niðurstöðu hér í Alþingi og ég átel það mjög harðlega með hvaða hætti hæstv. sjútvrh. og meiri hlutinn í sölum Alþingis, sem hefur komið fram að sé til staðar, en ég ætla nú ekki að trúa því fyrr en ég tek á, hvernig menn hafa staðið að aðdraganda þessa máls. Mér finnst það verulega óheiðarlegt að hafa ekki gefið mönnum kost á því að velja milli jafngildra kosta úr því menn voru tilbúnir að gefa þessum flota það heildaraflamark sem þarna er verið að tala um, öðru hvorum megin við 10 þúsund tonn, 11.079 tonn samkvæmt tillögu hæstv. ráðherra, sem voru til skiptanna í fyrra frumvarpinu. Það er óheiðarlegt að hafa ekki gefið mönnum kost á því að nota þann pott til þess að framlengja dagakerfið. Við gefum kost á því að menn geti skipt um skoðun hér í sölum Alþingis og tekið þá ákvörðun að nota þann heildarpott sem sjútvrh. sagði að væri til skiptanna með sinni tillögu, til þess að framhalda dagakerfinu.