Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 18:16:43 (9433)

2004-05-28 18:16:43# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Með þessu frv. á að útrýma sóknardagakerfi smábáta fyrir fullt og allt. Færsla þessa kerfis yfir í krókaaflamark mun hafa margvíslegar afleiðingar. Í fyrsta lagi ber að nefna að nýliðun verður hér eftir svo til ómöguleg í greininni þar sem horfið verður frá sóknarmarki yfir í sölu- og leigubraskkerfi aflaheimilda.

Í öðru lagi vil ég nefna þann skaða sem Norðvest. verður fyrir í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Samdráttur í lönduðum afla í kjördæminu mun að öllum líkindum verða vel á fjórða þúsund tonn af bolfiski á ársgrundvelli.

Í þriðja lagi er deginum ljósara að rekstrarskilyrði fiskvinnslna vítt og breitt um landið munu verða gerð afar erfið yfir sumarmánuðina sem eru jafnframt allra síðustu mánuðir kvótaársins, en kvótaárinu lýkur á hverju ári þann 31. ágúst. Sóknardagabátarnir hafa aflað fjölmörgum fiskvinnslum hráefnis á þessum árstíma. En eins og öllum er kunnugt um er mjög algengt að útgerðir skipa í aflamarkskerfi klári aflaheimildir sínar á vormánuðum og jafnvel fyrr á árinu. Því mun lagasetningin óhjákvæmilega hafa gríðarleg áhrif á hráefnisflæði yfir sumartímann og jafnvel stuðla að fjöldauppsögnum í fiskvinnslum vítt og breitt um landið á vormánuðum hér eftir.

Í fjórða lagi ber að nefna brottkastið, virðulegur forseti. Með færslu frá sóknarkerfi yfir í sölu- og leigubraskkerfi aflaheimilda hefur reynslan ítrekað sýnt okkur að brottkast mun stóraukast á Íslandsmiðum.

Að síðustu er varðar óhjákvæmilegar afleiðingar af frv. ber að nefna óöryggi hinna dreifðu byggða þar sem oft og títt hefur sannast í ræðum stjórnarliða að markaðurinn eigi fyrst og síðast að ráða í þeim efnum. Þeim fullyrðingum og rökum stjórnarliða hafna ég og mótmæli harðlega. Réttur einstaklingsins, réttur sjávarbyggða, atvinnuöryggi á landsbyggðinni og frumburðarréttur allra Íslendinga til nýtingar á þjóðarauðlindinni á að hafa meira vægi en hinn tíðræddi markaður stjórnarliða. Með því að heimila sölu- og leigubrask aflaheimilda hjá einkafyrirtækjum er stórlega vegið að greininni með gegndarlausum stórskuldbindingum og aukaálögum á greinina. Þeir einu sem hagnast á slíku kerfi eru stóreigendur aflaheimilda sem leigja frá sér réttinn, einstaklingar sem hverfa úr greininni með hundruð og jafnvel milljarða íslenskra króna í vasanum, ásamt hinum fjölmörgu fjármálastofnunum sem að óþörfu taka óheyrilega háan skerf af raunverulegum hagnaði í okkar stærsta atvinnuvegi, sjávarútveginum.

Frú forseti. Stjórnarliðar hafa enn og aftur í þessu máli staðfest vilja sinn og hugsjónaleysi fyrir framvindu íslensks sjávarútvegs. Ekki endurspeglast nokkur vilji hjá stjórnarliðum til að ná fram sátt um íslenskan sjávarútveg. Því munu eldar ófriðar loga áfram um þessi mál á meðan núverandi ríkisstjórn situr að völdum.

Í lok ræðu minnar, frú forseti, get ég ekki orða bundist um þátt hv. þingmanna stjórnarliðsins í Norðvest. Allir með tölu hafa þeir gefið til kynna í loforðum og ræðum að þeir vilji áfram vöxt og viðgang sóknarkerfisins. Allir hafa þeir beint og óbeint lýst yfir vilja sínum á að ná fram 23 daga gólfi á sóknardögum handfærabáta. Það hafa þeir sagt á fjöldafundum vestra, bæði fyrir og eftir síðustu alþingiskosningar.

Virðulegur forseti. Skyldi svo verða að einungis einn stjórnarliði, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, greiði atkvæði gegn frv.? Ég lýsi yfir undrun minni, bæði sem þingmaður og íslenskur kjósandi, ef hv. þingmenn stjórnarliða í Norðvest. ætla sér virkilega að ganga á bak orða sinna og fyrri loforða um varðsetu þeirra fyrir sóknardagakerfinu. Hver er æra og sannfæring þingmannanna, virðulegur forseti? Svarið við þeirri spurningu minni mun koma í ljós við atkvæðagreiðslu síðar í dag.