Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:56:34 (9462)

2004-05-28 19:56:34# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ef reyndin verður sú að sá afli sem kemur á land á ákveðinni verstöð dragist verulega saman þá er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því. Það getur haft slæm áhrif á atvinnulíf á þeim mánuðum sem það annars hefði skapað atvinnu. Ég fór yfir málið í ræðu minni og reyndi að draga fram rökin fyrir því, sem ég tel vera allnokkur, að það er ekki líklegt að sú verði niðurstaðan. Ég get ekki fullyrt um það. Ég held ekki að áhrifin verði engin en ég tel ekki líklegt að áhrifin verði í þeim mæli sem hér hefur verið dregið upp. Í krókaaflamarkinu er dreifingin eins og ég rakti.

Ég vil vekja athygli á því að afli sem berst á land mun ekki minnka þótt skipt verði um kerfi. Menn munu landa þessum 10 þús. tonnum yfir árið. Það getur verið að þau dreifist eitthvað öðruvísi eftir mánuðum en verið hefur, minna á sumrin og meira á öðrum tíma árs. En í heildina mun framboð á fiski til fiskvinnslunnar ekki minnka.