Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:09:13 (9478)

2004-07-05 15:09:13# 130. lþ. 133.92 fundur 627#B fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í kjölfar þess að forseti Íslands kynnti þá ákvörðun sína 2. júní sl. að synja svonefndum fjölmiðlalögum staðfestingar og vísa þeim í þjóðaratkvæði á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar hefur stjórnmálaumræðan í landinu fyrst og fremst snúist um það hvenær og hvernig þær kosningar skuli fara fram. Hjáróma raddir um eitthvað annað en að ganga til þeirra kosninga hljóðnuðu innan fárra sólarhringa. Því miður hafnaði ríkisstjórnin öllu þverpólitísku samstarfi um undirbúning kosninganna. Hæstv. forsrh. hélt einn af sínum frægu 15 mínútna fundum og í kjölfarið voru þingmenn boðaðir saman til fundar þennan dag, mánudaginn 5. júlí, sem sagt heilum mánuði og þremur dögum eftir að forseti kynnti ákvörðun sína. Allan tímann síðan hefur aldrei verið rætt um annað en að verkefni þessa þings yrði að taka nauðsynlegar ákvarðanir eða grípa til nauðsynlegra lagalegra aðgerða til þess að þjóðaratkvæðagreiðslan gæti farið fram.

Það er fyrst í gærkvöldi, rúmlega hálfum sólarhring áður en þingfundir eiga að hefjast, sem fréttir berast af því að þing eigi að koma saman til að ræða eitthvað allt annað og gera eitthvað allt annað hvað varðar framlagningu mála af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við í stjórnarandstöðunni höfum unnið heimavinnuna okkar. Hér liggur fyrir frv. með einföldum og skýrum ákvæðum sem tryggja að kosningarnar gætu farið fram og þjóðin notið stjórnarskrárbundins réttar síns til þess að hafna eða samþykkja þetta frv.

Framlag ríkisstjórnarinnar hér er hins vegar svo ótrúlega ósvífið að ég skal játa að það tók mig nokkra klukkutíma að átta mig á því til fulls. Ég vil spyrja hæstv. forseta Alþingis: Hefur hann hugleitt eða kannað hvort frv. ríkisstjórnarinnar sé þinglegt? Er ekki í því fólgin óþingleg ætlan um að fara á svig við stjórnarskrána og hafa með brögðum af þjóðinni réttinn til þess að kjósa um málið í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar? Hér er um sama málið að ræða. (Forseti hringir.) Það hefur hæstv. forsrh. viðurkennt þannig að ég spyr hæstv. forseta: Hefur forseti úrskurðað um það að hér sé um þinglegt mál að ræða?