Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:26:39 (9486)

2004-07-05 15:26:39# 130. lþ. 133.92 fundur 627#B fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Atburðarás síðasta sólarhrings snýst í mínum huga um tvennt: Í fyrsta lagi er ríkisstjórnin of hrædd við að leggja verk sín í dóm þjóðarinnar eins og fyrirhugað var. Í öðru lagi ætlar þessi ríkisstjórn að setja sömu ólögin aftur.

Ríkisstjórnin hefur kastað handklæðinu í hringinn. En í staðinn fyrir að viðurkenna mistök sín eins og venjulegt fólk slá þeir enn eitt neðanbeltishöggið til viðbótar. Í rauninni hafa neðanbeltishöggin verið ansi mörg í þessu máli. Ríkisstjórninni er eflaust ekkert heilagt og er öllum ráðum beitt til að hægt sé að komast hjá því að þjóðin geti sagt álit sitt á þessu máli. Fyrst var málflutningurinn sá að málskotsréttur forseta væri einfaldlega ekki til þrátt fyrir skýran vilja höfunda stjórnarskrárinnar. Síðan var sett fram sú furðulega skoðun að forseti væri vanhæfur til að sinna þessari skyldu sinni. Svo heyrðist úr herbúðum Sjálfstfl. að málið væri ekki af þeirri stærðargráðu að þjóðin mætti segja álit sitt á því. Loks átti að setja takmarkandi og íþyngjandi skilyrði á sjálfan kosningarrétt þjóðarinnar.

En síðasta útspilið slær þó öllu við. Það á að afturkalla lögin en setja síðan sömu lögin aftur. Ég trúi ekki að þjóðin sjái ekki í gegnum þennan farsa og þennan vitleysisgang sem hæstv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sýnir í þessu máli.