Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 15:23:31 (9544)

2004-07-21 15:23:31# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi nokkuð um skoðun Daggar Pálsdóttur á því að ekki mætti stöðva ferli sem farið er í gang frá því að forseti synjar lögum undirskriftar og þar til þjóðin hefur tekið ákvörðun um þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þessi skilningur Daggar er réttur þá getur komið upp mjög sérstök staða, þarna geta liðið einn eða tveir mánuðir. Þau lög sem forseti lýðveldisins hefur synjað því að staðfesta eru einu lögin í öllu lagasafninu sem enginn, herra forseti, getur breytt og það getur haft hörmulegar afleiðingar.

Við skulum gefa okkur sem dæmi að hv. Alþingi samþykkti lög um dauðarefsingu sem auk þess væri fyrir mistök afturvirk. Sumir forsetar hafa a.m.k. lýst því yfir að þeir mundu aldrei samþykkja slík lög. Segjum að hann neiti að samþykkja slík lög. (Gripið fram í.) Einmitt, lögin brytu stjórnarskrána líka. Þá mundu slík lög taka gildi og ekkert gæti stöðvað þau fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Segjum að það eigi samkvæmt þessum lögum að fullnægja dauðadómi innan 48 tíma eða eitthvað slíkt. Þetta er náttúrlega afleiðing sem menn sjá fyrir sér og ég vil spyrja hv. þm.: Ef þetta er afleiðing af 26. gr., telur hann ekki nauðsyn á að breyta henni?

Þá vildi ég spyrja hv. þm.: Nú eru flestir sammála um að gera þurfi eitthvað í fjölmiðlamálum, samþykkja einhver lög. Er flokkur hans fylgjandi því að skerða eignarhald eða er hann fylgjandi því sem Samf. leggur til að gera reglur um ritstjórnarlegt frelsi og gagnsætt eignarhald?