Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:18:43 (9571)

2004-07-21 17:18:43# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Ég er á móti þessum fjölmiðlalögum. Ástæðan fyrir því að ég get samt ekki stutt það með atkvæði mínu að þau verði tekin til baka hér með samþykkt Alþingis er að sterk rök hafa verið færð að því af Ragnari Aðalsteinssyni og reyndar fleirum að með því að forseti synji frv. samþykktar sé komið af stað ferli sem stofni ákveðinn rétt landsmanna. Þessi réttur felst í því að þeir eiga að hafa kost á því að segja álit sitt með og á móti þessu máli sem forsetinn hefur vísað til þjóðarinnar. Rök hafa verið færð að því að með því að taka málið úr þessu ferli sé verið að skerða þann kosningarrétt. Hann fellur undir mannréttindi og að því eru færð sterk rök hjá lögfræðingnum sem ég nefndi, Ragnari Aðalsteinssyni, að slík mál sem mundu reist verða sökum þessa mundu auðveldlega vinnast fyrir alþjóðlegum mannréttindadómstólum. Þetta gerir það að verkum að mér er ómögulegt að styðja þessa aðferð. Ég spyr nú hv. þm. Jónínu Bjartmarz, af því að hún er lögfræðingur: Telur hún þetta ekki dálítið þungt, telur hún það ekki dálítinn háska á þessari vegferð ef það er sagt af manni sem hefur nokkra reynslu og unnið öll sín mál fyrir Mannréttindadómstólnum að hann skuli taka svona til orða? Mér finnst nokkuð viðurhlutamikið að samþykkja þetta.

Svo verð ég að segja að mér finnast það ekki góð vinnubrögð hjá hv. þingmönnum meiri hlutans að segja núna að óhönduglega hafi tekist til um orðalag í nál. Það er algjört lykilatriði með hvaða hætti menn skýra þessar brtt. Það stendur ,,stjórnskipulegur vafi`` og af því dreg ég ákveðna ályktun og hún er sú að ef stjórnskipulegur vafi leikur á svona atriðum (Forseti hringir.) á þingið að láta stjórnarskrána njóta vafans og það gildir líka um ...