Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:20:56 (9572)

2004-07-21 17:20:56# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sat í allshn. gegnum alla þessa vinnu ásamt þeirri sem hér stendur og ýmsum fleirum. Það vekur auðvitað athygli hér í andsvörum alveg eins og í ræðu hv. þm., og er kannski ekki nema eðlilegt, að hann vísar yfirleitt aðeins í hluta þeirra fræðimanna sem komu á fund nefndarinnar. Það er eðlilegt, hann hallast að þeirri skýringu og pólitík hans er sú að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram þó að hann afneiti því að hann sé einhverrar ofsatrúar samkvæmt þeirri lögskýringu. Hann hefur líka, að mér heyrist, viðurkennt skynsemina í því að velja aðrar leiðir.

Því að kosningarrétturinn í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar teldist til mannréttinda hélt einungis einn gestur á fundi hjá allshn. fram. Það var Ragnar Aðalsteinsson. (Gripið fram í.) Aðrir héldu því fram að þetta félli bara undir borgaraleg réttindi og hefði ekkert með mannréttindaákvæði að gera. Við skulum hafa það aðeins í huga í þessu --- ég tek það fram að ég er hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu og líka að þjóðaratkvæðagreiðsla skv. 26. gr. fari fram þegar það á við --- að það eru engir beinir hagsmunir tengdir því að fá að kjósa samkvæmt þessu. Þetta er bara spurningin um að fá að neyta réttar. Maður getur ekki líkt þessu saman við það sem við venjulega fellum undir mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það var akkúrat það sem prófessorarnir títtnefndu sögðu við okkur, ef ekki allir þá a.m.k. tveir þeirra, að þetta félli ekki undir mannréttindakaflann og að ekki væri verið að svipta fólk neinum mannréttindum þó að þjóðaratkvæðagreiðsla færi ekki fram að þessu sinni.