Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 19:44:15 (9605)

2004-07-21 19:44:15# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um fjölmiðlamálið því það er ekki á dagskrá. (Gripið fram í: Nú.) Hér er á dagskrá frv. sem fellir út allt þetta fjölmiðlamál í heilu lagi og menn verða að geyma sér til síðari tíma að fara yfir þau rök sem menn vilja hafa þegar kemur að nýjum málum af þessu tagi.

En það er eitt sem mig langar til að ræða við hv. þm. og það er að gefnu tilefni því það er ekki bara hann heldur hefur hæstv. forsrh. og líka hæstv. utanrrh. borið það við í vandræðum sínum að finna rök fyrir því að setja einhvers konar skorður við þjóðaratkvæðagreiðsu sem hér var mikið til umræðu. Ein aðalrökin sem þeir hafa sett fram endurtók hv. þm. í ræðu sinni. Þau voru að vegna þess að Alþingi Íslendinga hefði verið kosið af 84% þjóðarinnar eða hvað það nú var við síðustu kosningar, þá ætti að setja skorður sem byggðu á því að Alþingi hefði verið kosið með svona stórum hluta kjósenda. En ríkisstjórnarflokkarnir sem báru ábyrgð á fjölmiðlamálinu hlutu 51% af þeim atkvæðum sem skiluðu sér í kjörkassana í síðustu kosningum og það voru ekki einu sinni allir þingmenn stjórnarflokkanna sem kusu með því frv. í þinginu. Einn var á móti og einn sat hjá þannig að bakstuðningurinn við ríkisstjórnina í fjölmiðlamálinu var fyrir neðan 50% af þeim sem kusu í kosningunum. En hv. þm. gerir eins og foringjar hans og leiðir það fram sem rök og telur með atkvæði á bak við þá þingmenn sem voru alfarið á móti lögunum. Með því er hv. þm. í rauninni að telja atkvæði andstæðinganna með. Eru það nú rök!