Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:36:24 (58)

2003-10-03 12:36:24# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:36]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta kom úr hörðustu átt því að ég man eftir félagshyggjuboðskap Framsfl. fyrir kosningar. Stundum lá við að ég yrði hálfklökkur þegar ég heyrði félagshyggjuáherslu Framsfl. fyrir síðustu alþingiskosningar en allt kom svo til húsa á ný og Framsfl. er kominn á kaf í einkavæðingarsæng Sjálfstfl. Og allt er við það sama.

Ég sagði hér í ræðu minni að kosningaloforðunum sem höfðu verið gefin þarna hefði verið kastað út um gluggann, í bili a.m.k., og ég harma það ekki þó að þessum boðuðu skattalækkunum, stórfelldu skattalækkunum, 20 milljarðar hjá Sjálfstfl., 14 eða 15 hjá Framsfl. og hvað þetta var hjá Samfylkingunni --- maður hafði aldrei tölu á öllum þessum gylliboðum --- verði slegið á frest og menn standi áfram vörð um samfélagsþjónustuna. Ég harma það ekkert. Ég vildi að vísu sjá að ef menn færu út í skattbreytingar á annað borð --- og það var brýnt reyndar --- yrði sköttum létt af þeim sem hafa lægstu launin en það er ekki gert. Einu breytingarnar sem stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., eru sammála um er að lækka hátekjuskattinn. Hefði ekki verið nær, virðulegi forseti, að Framsfl. hefði beitt sér fyrir því að því hefði þó verið frestað en skattar á lægstu laun hins vegar lækkaðir? Hefði það ekki verið nær? Ég hefði viljað sjá það hjá Framsfl., að hann hefði þá haft manndóm í sér til að standa í lappirnar og krefjast þess.