Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:57:08 (88)

2003-10-03 14:57:08# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að við erum ósammála í stjórnmálum. Engum þarf að koma það á óvart. Ég tel hins vegar að sú meðaltalsnálgun sem felst í aðferðafræði þessa frv. og að hluta til í málflutningi hv. þingmanns eigi að heyra sögunni til. Þessi aðferð var tíðkuð hér fyrr á tíð. Þá var ráðist í meðaltalsniðurskurð hjá hinu opinbera og þessa gætir enn í þessu frv. hvað varðar stjórnsýsluna. Hana á að draga saman um 1% óháð því hvaða stofnun um er að ræða og hvernig ástatt er fyrir henni. Miðstýrð ákvörðun kemur fram um 1% samdrátt. Á sama tíma er vísað hér í almenna þróun samneyslunnar.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að á ýmsum sviðum er hægt að spara og að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að ráðdeild sé sýnd í meðferð opinberra fjármuna. Ég heyrði hins vegar ekki betur en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi fyrst og fremst vísað til þeirra þátta samneyslunnar sem viðkvæmastir eru og mega síst við því að dregið verði úr fjármunum til, þ.e. heilbrigðisþjónustnunar. Þar er kominn maðurinn með kanínuna. En það ræðum við síðar.