Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:38:11 (98)

2003-10-03 15:38:11# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt þetta kannast ég við. Nú er talað um skýr ákvæði í samningum, gagnsæja samninga á milli verkkaupa og verksala og eftirlit. Það er kapítuli út af fyrir sig að taka upp umræðu um þetta eftirlit. Það er enn annar kapítuli að tala um þessa nýsovésku útgáfu af eftirlitskerfum, vegna þess að fylgifiskur þessara nýju kerfa, þessarar einkaframkvæmdar innan velferðarþjónustunnar er eftirlitsbákn, endalaust eftirlit. Það er kveðið á um það í samningi að það eigi að vera súpa í hádeginu á elliheimilinu, en hvað er í súpunni? Það þarf að senda eftirlitssveit á vettvang. Það á að þvo gólfin í skólanum, en hvernig sápa er notuð á gólfin? Það þarf að senda eftirlitssveit á vettvang.

Það er verið að smíða mjög dýrt og svifaseint kerfi í stað þess sem við þegar höfum. Við erum með mjög góða heilbrigðisþjónustu, almennt erum við með mjög góða og vel skipulagða heilbrigðis- og menntaþjónustu. Við eigum að reyna að byggja á henni, bæta hana. Ég er vissulega talsmaður þess að við sýnum ráðdeild í hvívetna í meðferð opinberra fjármuna en ég bið þess lengstra orða að ekki verði haldið út á þessa braut markaðsvæðingar sem ég þykist vita að hæstv. heilbrrh. svona innst í hjarta sínu trúir ekki heldur á.