Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:27:21 (119)

2003-10-03 17:27:21# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Eins og fram kom í annarri ræðu minni hér áðan á ég enn eftir ólokið einum stuttum kafla í þeirri ræðu sem ég hefði helst viljað flytja hér í einu lagi en vegna tímamarka tókst það ekki.

Sá kafli sem ég á eftir er raunverulega sá kafli sem ég nefndi snemma í minni fyrstu ræðu, um að það væri ákveðinn innbyggður vandi í ríkiskerfinu. Ég vil taka dæmi þar um. Ég nefndi að það væri þekkt bæði í heilbrigðiskerfinu, menntakerfi og ég tala nú ekki um í samskiptum sveitarfélaga sem ég hef nú aðeins minnst á.

Ég vil aðeins snúa mér að stöðunni hjá háskólum og framhaldsskólum þessa lands. Það hefur því miður verið þannig í allt of mörg ár að þar hefur verið innbyggður vandi, þar hefur verið fjárskortur. Og ég leyfi mér að fullyrða það vegna þess að það kemur m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2001 að það sé neikvæð staða upp á rúmlega 300 millj. í framhaldsskólakerfinu og þá er tekið tillit til þess að þar sé ekki verið að eyða um efni fram eða annað þess háttar, heldur vegna þeirrar þjónustu sem þar er veitt og ætlast er til að sé veitt í skólunum. Og því miður, frú forseti, er ekkert í því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir sem ætlar að taka á þessum vanda, hvorki háskólanna né framhaldsskólanna.

Í texta frv. segir að tekið sé tillit til nemendafjölgunar og það sé það eina í raun og veru sem gert sé til þess að bæta hag háskólanna og framhaldsskólanna.

[17:30]

Þegar betur er skoðað kemur í ljós í textanum að sá nemendafjöldi sem miðað er við er ekki kominn frá skólunum sjálfum. Hann virðist vera fundinn upp í menntmrn. og það er töluverður munur á þessum tölum. Væntanlega gerum við flest ráð fyrir því að skólarnir hafi betri yfirsýn yfir það hversu margir nemendur eru í skólunum en hið háttvirta ráðuneyti.

Miðað er við það í þeim fjárframlögum sem reiknuð eru til háskólanna í fjárlagafrv. að nemendafjöldinn sé 10.448. Skólarnir telja að nemendafjöldinn verði á árinu 2004 10.900. Þarna skeikar um heila 500 nemendur. Og ef reiknaður er kostnaðurinn við þessa 500 nemendur og miðað við meðalkostnað á nemanda, eins og gert er í því reiknilíkani sem notað er til þess að reikna þetta út og áður en til frádráttarliða kemur, þá er þessi mismunur upp á um 300 millj. kr.

Ef við skoðum framhaldsskólana eins þá er áætlað í tölum ráðuneytisins að nemendafjöldinn verði 16.220. En tölur skólanna fyrir árið 2003 eru 16.550. Þarna skeikar um 330 nemendur. Takið eftir: Annars vegar áætlar ráðuneytið fjöldann árið 2004, hins vegar eru rauntölur úr skólunum fyrir árið 2003. Og það hefur ekki gerst í mjög langan tíma að nemendum á milli ára í framhaldsskólum landsins fækki. Allar líkur eru á því að þeim fjölgi og þar af leiðandi verði talan enn hærri. En ef þessi tala er umreiknuð í upphæð þá munar þarna um 180 millj. kr. Þarna er sem sagt samanlagt bara varðandi nemendafjöldann um hálfan milljarð að ræða sem skeikar á milli talna ráðuneytisins og skólanna.

Því miður, frú forseti, held ég að þetta sé ekki tilviljun heldur hafi verið viðloðandi í þó nokkurn tíma. --- Afsakið, herra forseti. Það hafði farið fram hjá mér að hér hefur orðið skipting í stólnum. Ég bið því herra forseta afsökunar á titlinum. Herra forseti skal það vera vonandi það sem eftir er ræðu minnar.

Herra forseti. Ég tel það ekki vera tilviljun að þessi munur er nú á. Ég tel að það hafi áður gerst að þessar tölur hafi verið ranglega reiknaðar og það sé hluti af þeim vanda sem við er að etja í þessum skólum. Hann er hins vegar miklum mun margvíslegri. Þessu til áréttingar vil ég benda á tölur sem fram koma í fjárlagafrv. sjálfu, þar sem m.a. eru bornar saman niðurstöður reikninga ársins 2002 í framhaldsskólum landsins og hins vegar frv. fyrir árið 2004. Það er athyglisvert að af 26 framhaldsskólum eru 19 með neikvæðan mismun, þ.e. að niðurstöðutölur skólanna fyrir árið 2002 eru hærri en þær tölur sem áætlaðar eru fyrir árið 2004, þrátt fyrir að auðvitað hafi þarna orðið töluverð nemendafjölgun og að auki þrátt fyrir að búið sé að breyta töluvert á milli safnliða, og það er öðruvísi sundurliðun en var hin fyrri ár þannig að það ætti í raun að minnka þennan mun eða vinna hann upp. En því miður er þessi munur þessi og hann segir okkur að vandi skólanna er vaxandi. Það er ekki verið að vinna á vandanum heldur auka hann.

Þessar tölur eru allt upp í 20% mun á einstaka skóla. Hvort það segir okkur eitthvað þá er samt sem áður athyglisvert í þessari töflu að hjá Verslunarskóla Íslands, sem er rekinn, eins og hv. þingmenn þekkja, á annan hátt en hinir svokölluðu ríkisframhaldsskólar, hækkar. Þar er jákvæður mismunur upp á rúm 20%. Nú veit ég ekki, vegna þess að mig skortir upplýsingar, hvort þetta sé merki um að einhvern veginn öðruvísi sé gefið í því tilefni.

Herra forseti. Eitt lítið mál á ég eftir í ræðu minni sem var nefnt úr þessum ræðustól fyrir fáeinum dögum síðan, þ.e. núverandi staða þróunaraðstoðar íslensku þjóðarinnar. Fram kemur að metnaðarleysi okkar heldur því miður áfram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004 og það er ekki að sjá, þó skoðaðar séu þær áætlanir sem til standa til ársins 2007, að þar eigi nokkur breyting á að verða.

Það er eðlilegt að menn horfi til þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að sækjast eftir því að Ísland eigi sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það hlýtur að vera eðlilegt að spurt sé hvort menn ætli að vera í platframboði eða í alvöruframboði. Ef menn ætla að vera í alvöruframboði þá hljóta þeir að skoða þessi mál í heild sinni því að það hlýtur að vera markmiðið, ef menn eru að fara í svona framboð, að ná kjöri. Og ef menn ætla að ná kjöri þá hljóta þeir að leita eftir því að sem allra flestar þjóðir heimsins hafi ástæðu til þess að kjósa okkur í öryggisráðið. Því miður, herra forseti, skortir þarna á metnað, sýnist mér.

Herra forseti. Örlítið varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram. En enn á ný sýnist mér þó tími minn vera slíkur að ég nái ekki að fara yfir allt það sem ég hefði viljað koma inn á í þeirri umræðu. Ég mun því eingöngu taka fyrir það sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi í ræðu sinni fyrr í dag.

Það er athyglisvert sem hv. þm. nefndi m.a., að Framsfl. hefði engin loforð svikið sem hann hefði gefið fyrir kosningar. Hann er þar af leiðandi að segja: ,,Það var samstarfsflokkurinn sem hefur svikið.`` Það eru vissulega tíðindi. Hv. formaður fjárln. staðfesti málflutning margra stjórnarandstæðinga um að svik hafi átt sér stað. Hv. þm. þótti a.m.k. sérstök ástæða til þess að taka það fram að Framsfl. hefði ekki svikið.

Hins vegar skortir töluvert á að við höfum séð nokkuð um loforð Framsfl. í hinu stóra máli að bjarga öllu í húsnæðismálum. Að vísu hafði Framsfl. verið með þennan málaflokk til fjölda ára í ríkisstjórn en þótti samt sem áður ástæða til að gera það eitt af sínum höfuðmálum í kosningunum að þar þyrfti nú heldur betur að taka til. Við skulum vona að þær tillögur sjái dagsins ljós fyrr en síðar.

Ég vil sérstaklega geta eins annars markverðs atriðis sem fram kom í ræðu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, þ.e. að hann boðar það að sérstaklega verði farið yfir vinnubrögð og vinnulag í fjárln. Þetta hefur áður komið fram frá fyrrv. hv. formanni fjárln. En því miður varð lítið úr því. Ég treysti því hins vegar, herra forseti, að núv. hv. formaður fjárln., Magnús Stefánsson, muni standa við þau orð sem hann lét falla áðan, enda held ég að þau séu í tíma töluð.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég treysti því að við munum í fjárln. eiga gott samstarf og skila fjárlögum til 2. umr. á tilsettum tíma.