Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:00:27 (178)

2003-10-06 16:00:27# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili urðu deilur hvað harðastar um Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð. Niðurstaða, nokkuð afgerandi, fékkst í því máli. Síðan hófust framkvæmdir.

Rétt er að draga fram um hvað þetta mál snýst. Það er verið að byggja heilt þorp og ekki á neinum venjulegum stað heldur hátt upp til fjalla við óvenjulegar aðstæður. Þorpið verður jafnvel stærra en sum af þeim þorpum sem nú eru þegar í byggð. Það sem gerir málið enn sérkennilegra er að stór erlendur verktaki fer fyrir framkvæmdum í samstarfi við ýmsa innlenda verktaka. Þar eru fjölmargir erlendir verkamenn í bland við íslenska verkamenn og tæknifólk.

Herra forseti. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður hljóta mörg vandamál að skjóta upp kollinum. Það er eðli málsins samkvæmt ef aðstæður eru skoðaðar. Ólíkir menningarheimar mætast. Þarna eru mjög sérkennilegar aðstæður í umhverfinu og þannig má áfram telja. Mestu skiptir að bregðast við með eðlilegum hætti.

Ég tel, herra forseti, að hæstv. félmrh. hafi gert það. Hann getur ekki annað en bundið sig við lög og reglugerðir. Við sjáum hve virk Vinnumálastofnun hefur verið í þessu máli. Við sjáum hve landlæknisembættið hefur verið virkt og gripið inn í þetta mál. Við sjáum hve virk verkalýðshreyfingin hefur verið í þessu máli. Með öðrum orðum hefur stjórnsýslan verið virk í þessu máli en vandamálin eru vissulega til staðar. Enn fleiri vandamál munu koma upp. Grundvallarspurningin er: Með hvaða hætti hyggjumst við taka á því? Þar er útgangspunkturinn, eins og fram kom hjá hæstv. félmrh., að okkur ber að fara að íslenskum lögum. Það hyggst hæstv. félmrh. gera áfram eins og hann hefur gert og það ber öðrum einnig að gera. Um það snýst þetta mál, herra forseti.