Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:14:17 (184)

2003-10-06 16:14:17# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvort breyta eigi lögum á þann hátt að stjórnvöld hafi sterkari úrræði að beita í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir. Það er mín skoðun að við eigum áfram að byggja á þeirri hefð sem ríkir hér á landi og víðar í hinum vestræna heimi, að aðilar á vinnumarkaði semji sjálfir um kaup og kjör. Inngrip af hálfu löggjafar- eða framkvæmdarvalds eiga að vera takmörkuð og almenns eðlis og meginreglan er að ríkt svigrúm sé fyrir hendi fyrir aðila til að semja sín á milli. Hins vegar sjálfsagt að skoða tillögur um endurskoðun á lögum um þessi mál.

Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um starfsmannaleigur er rétt að vekja athygli á að hér er ekki um einfalt umfjöllunarefni að ræða. Hér gilda m.a. reglur á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið varðandi frjálsa för fólks og kaup á þjónustu. Ég veit að í öðrum Evrópuríkjum hefur farið fram umræða um þessi mál og ég mun fylgja eftir framvindu mála á þeim vettvangi. Það er ekki ósennilegt að löndin á Evrópska efnahagssvæðinu taki sameiginlega afstöðu til slíkrar starfsemi.

Almennt tel ég að þær eftirlitsstofnanir sem við höfum komið okkur upp á vinnumarkaði og þær leikreglur sem við höfum sett okkur virki og skili okkur árangri sem við getum verið sátt við. Ákvörðun um að breyta þessum kerfum og löggjöfinni sem starfað er eftir kallar á yfirvegaða og ítarlega umræðu.

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur áhyggjur af því að ráðherra standi ekki í lappirnar. Ég tel þvert á móti að ég geri það, sem kannski er meira en hægt er að segja um suma þá sem hafa komið hér upp. Ég vil ítreka að umræðan sem hér fer fram verður að byggja á yfirvegun og sanngirni. Ósannaðar fullyrðingar og upphrópanir skila litlum árangri. Við verðum að virða íslensk lög. Við verðum að gera þær kröfur til þeirra fyrirtækja sem þarna starfa að þau virði íslenska kjarasamninga og íslensk lög. Brot á slíku verða ekki liðin, hvorki af hálfu umrædds fyrirtækis né annarra.