Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:30:55 (196)

2003-10-06 17:30:55# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég hef fjallað nokkuð um þáltill. þá sem við þingmenn Samf. flytjum allir saman en formaður okkar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, mælti fyrir fyrr í umræðunni. Í henni er að finna ýmis atriði sem samþingmenn mínir hafa rakið ágætlega. Ég nefni m.a. það sem lýtur að stjórnarskránni og framsali fullveldis til alþjóðastofnana sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur fjallað ágætlega um og ég hirði ekki um að gera sérstaklega að umfjöllunarefni.

Því sem lýtur að aðskilnaði ríkis og kirkju hafa bæði hv. 4. þm. Reykv. s. og hv. 4. þm. Suðvest. gert ágæt skil í umræðunni og þeim atriðum sem lúta að sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar hefur 2. þm. Norðvest. gert svo ágæt skil að ég held að ég þurfi ekki að eyða frekari orðum í það.

En það voru tvö eða þrjú atriði í tillögunni sem ég vil sérstaklega fá að ræða. Fyrst vil ég nefna það atriði sem snýr að landinu sem einu kjördæmi.

Við Reykvíkingar höfum í raun alla tíð og allt of lengi mátt búa við að njóta ekki borgararéttinda í þessu landi á við ýmsa aðra landsmenn. Það hefur falið í sér að atkvæðisréttur okkar hefur verið minni og á stundum miklum mun minni en annarra íbúa í landinu. Okkur hefur þannig verið mismunað um réttindi sem borgarar í lýðræðisríki á grundvelli búsetu.

Það verður að segja að það er algerlega óþolandi að núna árið 2003 skuli fólk í þéttbýli hafa minna atkvæðavægi en fólk í dreifbýli. Það er algerlega óþolandi og löngu tímabært að á því verði tekið fyrir fullt og fast og þessi atkvæðamunur jafnaður út með öllu. Við Reykvíkingar ættum að njóta sömu borgararéttinda og aðrir landsmenn. Á það vil ég leggja sérstaklega áherslu, herra forseti. Ég lít í raun svo á að hér sé um að ræða grundvallarmannréttindi og þau séu brotin á þeim sem búa hér í borginni.

Sem betur fer höfum við smátt og smátt í gegnum árin og áratugina tekið skref í rétta átt í þessu efni. Smátt og smátt hefur dregið úr þessu misvægi. Við höfum fengið hverja kjördæmabreytingabreytinguna á fætur annarri sem hefur haft það að markmiði. En allar eru þessar kjördæmabreytingar því marki brenndar að þær hafa jafnan verið einhvers konar málamiðlanir milli mjög ólíkra sjónarmiða. Það er nú stundum þannig að meðaltalið af hugmyndum, sem út af fyrir sig kunna að vera ágætar hver um sig, getur stundum orðið alveg skelfilegt.

Ég held að það verði að segja um kjördæmakerfið sem hér hefur verið innleitt og kosið var eftir í vor, að það sé eiginlega ekki annað en einhvers konar afskræming á hugmyndinni um kjördæmakerfið. Það að láta sér detta í hug að skipta mínu sveitarfélagi, höfuðborg landsins, Reykjavík, upp í tvö kjördæmi eftir endilangri Miklubraut og Hringbraut þannig að fólkið sem býr í sama sveitarfélaginu er í ólíkum kjördæmum eftir því hvorum megin tiltekinnar umferðargötu það býr er auðvitað ekki bara óhentugt. Það er í hróplegu ósamræmi við vilja íbúanna í Reykjavík og vilja kjósendanna í Reykjavík. Reykjavík var eitt kjördæmi og það er alveg ótvírætt vilji kjósenda í Reykjavík að Reykjavík sé eitt kjördæmi. Það er alveg óþolandi fyrir eitt sveitarfélag í landinu að vilji íbúa þess sé svo algjörlega hunsaður um hvernig skipað er í kjördæmi eins og raun ber vitni. Það hlýtur að vera forgangsmál fyrir þingmenn þessara tveggja kjördæma að þurfa ekki að búa mjög lengi við þessa ómögulegu skipan mála í Reykjavík.

Ég hygg raunar að hið sama gildi um mörg önnur kjördæmi. Það er t.d. með miklum ólíkindum að eitt kjördæmi skuli geta spannað allt frá Reykjanesvita í vestri og austur á Hornafjörð. Hvers konar kjördæmi er það eiginlega sem þræðir þarna suðurströndina? Hvað er það sem bindur fólkið í Reykjanesbæ við fólkið í Hornafirði fremur en eitthvað annað fólk í landinu?

Nei, herra forseti. Ég held að það eina góða við það kjördæmakerfi sem hér var innleitt og skiptir landinu í þessi sex kjördæmi sé að nokkurn veginn allir landsmenn séu sammála um að vera jafnóánægðir með þetta fyrirkomulag. Við hér í höfuðborginni erum ósátt og óánægð með að borg okkar sé skipt upp í tvö kjördæmi en að sama skapi eru ýmsir landsbyggðarmenn, flestir trúlega, ósáttir við að kjördæmin þar séu orðin svo víðfeðm að þau tengsl sem hugsanlega réttlættu áður kjördæmaskiptinguna og gátu verið milli þingmanna kjördæmanna og íbúanna þar hafa rofnað. Nú eru landsbyggðarkjördæmin orðin svo viðamikil að það er nánast óvinnandi vegur að rækta þau tengsl svo einhverju nemi þegar þau spanna orðið svæði, eins og ég nefndi áður, allt frá Reykjanesvita austur á Hornafjörð.

Ég vona að þingmenn geti náð saman um að leggja þessu handónýta kjördæmakerfi og fara þá einu leið sem skynsamleg er í þessu máli, að gera landið að einu kjördæmi og tryggja þar með að þingmennirnir 63 í þessum sal séu tryggilega þingmenn allrar þjóðarinnar. Þeir væru þingmenn allrar þjóðarinnar og þyrftu að spegla vilja og hagsmuni Íslendinga hvar sem þeir búa í landinu en væru ekki þingmenn þessa sveitarfélags eða hins.

Ég hygg að ekkert eitt í stjórnskipan okkar hafi reynst íslenskum almenningi eins dýrt, herra forseti, og þetta kjördæmakerfi og þau kjördæmakerfi sem verið hafa á undan því. Þau hafa eins og við vitum alið á hrepparíg og flokkadráttum og því að menn hygluðu einstökum kjördæmum eða þingmönnum einstakra kjördæma á kostnað almennra skattgreiðenda. Um það höfum við svo mýmörg dæmi úr stjórnmálasögunni að ég hirði ekki um að rekja þau hér, herra forseti.

Ég vildi tæpa eilítið á öðru atriði í þáltill. okkar sem kemur raunar fram á tveimur stöðum, þ.e. því sem lýtur að rétti almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis að skoða aðrar leiðir sem geta verið til þess fallnar að auka áhrif almennings á ákvarðanatöku.

Hér held ég að sé tæpt á einhverju brýnasta viðfangsefni okkar í stjórnmálunum í dag og á næstu árum. Hér er um það að ræða að leita leiða til að færa valdið úr þessum sal og út til fólksins þannig að þess eigin ákvarðanir fái að gilda í þeim málum sem það telur brýnust.