Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:50:14 (221)

2003-10-07 13:50:14# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Það er rétt að vekja athygli á að með framboði okkar til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna erum við að fara á alþjóðavettvang, ekki vettvang Norðurlanda, Evrópuríkja eða Vesturlanda, heldur alþjóðavettvang. Þegar við höfum sett okkur í þetta framboð þá höfum við þar með beint kastljósi að utanríkisstefnu okkar á alþjóðavettvangi.

Meiri hluti hinna Sameinuðu þjóða, þróunarríkin, horfa sérstaklega á tvennt í því sambandi. Annars vegar líta þau á framlög okkar til þróunaraðstoðar, á skipulag okkar og grunnhugsun á því sviði. Nú er staðan sú að við erum sérstök undantekning í hópi iðnríkja. Hins vegar skoða menn tillögur okkar um framtíðarskipan í alþjóðaviðskiptum og framlag okkar í því efni. En í síðustu lotu í Cancún vorum við einmitt í hópi þeirra iðnríkja sem mesta vilja verndina og þverast standa í vegi þróunarríkja til bærilegrar framtíðar.

Spurningin sem við eigum að spyrja okkur er auðvitað ekki hvort menn ætli sér að kaupa atkvæði eða selja á alþjóðavettvangi heldur ósköp einfaldlega sú sem stjórnmálamenn hljóta að standa frammi fyrir þegar þeir hafa lýst yfir framboði: Af hverju ættu kjósendurnir að kjósa þá? Af hverju ættu þróunarlöndin að styðja framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna? Það verður fróðlegt að heyra í hæstv. utanrrh. um það efni.

Við getum að sumu leyti litið á þetta framboð eins og sögu Sigurðar Nordals um ferðina sem aldrei var farin. Það skiptir að lokum ekki öllu máli hvort við náum að setjast í öryggisráðið ef við náum að aga utanríkisstefnu okkar og frammistöðu á alþjóðavettvangi við þau áhrif og ábyrgð sem við sækjumst eftir.