Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:52:24 (222)

2003-10-07 13:52:24# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var það árið 1985 sem það stefnumið var samþykkt hér á Alþingi varðandi aðstoð Íslands við þróunarlöndin að opinber framlög Íslands skyldu nema 0,7% af landsframleiðslu. Það er í samræmi við stefnumótun Sameinuðu þjóðanna.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur verið unnið að því að auka framlög Íslands til þróunaraðstoðar og hefur því verki miðað ágætlega. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut en jafnframt að hafa í huga að þetta er verkefni sem þarf töluvert átak og er í stöðugri þróun. Það er mikilvægt að skilgreina vel og undirbúa þau verkefni sem við tökum þátt í til að sem bestur árangur náist.

Ef litið er örlítið aftur í tímann má segja að þróunaraðstoð okkar hafi tekið stakkaskiptum frá árinu 1997. Þróunarsamvinnustofnun hefur t.d. eflst til muna á þessu tímabili en stofnunin annast mörg ágæt verkefni sem fela í sér markvissa þróunaraðstoð við vanþróaðar þjóðir og hefur náðst góður árangur í þeim. Í þessu sambandi má einnig nefna hina svokölluðu ,,borgaralegu friðargæslu`` sem við tökum þátt í, m.a. í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu. Þar leggjum við til töluverða fjármuni.

En, herra forseti, vegna umræðunnar um framboð Íslands til öryggisráðisins sem hér hefur farið fram legg ég áherslu á að við eigum ekki að blanda saman því framboði okkar og framlögum til þróunarlanda. Við erum rík og siðmenntuð og okkur ber skylda til að rækja hlutverk okkar í samfélagi þjóðanna. Það gerum við t.d. með því að styðja við bágstaddar þjóðir enda þekkjum við vel hvað það er að komast frá fátækt til bjargálna. En við erum ekki að styðja þróunarlöndin til að komast í öryggisráðið, öðru nær.

Þróunaraðstoð er göfugt verkefni sem við viljum taka þátt í og leggja okkar af mörkum til hagsbóta fyrir þá meðbræður okkar sem þurfa á aðstoð að halda.