Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 16:46:04 (247)

2003-10-07 16:46:04# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um Landsbankann. Í frv. er gert ráð fyrir að tekjur vegna eignasölu lækki um u.þ.b. 2 milljarða frá því sem síðast var ráðgert. Ástæðan fyrir því er sú að Landsbankinn var seldur í erlendri mynt, þ.e. viðmiðunarverðið eða verðið á honum var skráð í erlendri mynt og krónan hefur styrkst, þannig að við verðum að reikna með minni tekjum í íslenskum krónum af þeim sökum. Þar fyrir utan er óútkljáð hvernig farið verður með fyrirvara í kaupsamningnum sem lýtur að endanlegu uppgjöri á Landsbankanum sjálfum. Það mál er ekki alveg útkljáð, en fram hefur komið að það var tiltekinn fyrirvari með tilliti til útistandandi krafna Landsbankans sem átti eftir að meta endanlega. Þess vegna höfum við í þessu frv. í varúðarskyni gert ráð fyrir 2 milljarða kr. minni tekjum af eignasölu en áður var ráðgert. En ég legg áherslu á að ekki er búið að slá neinu föstu um þetta enn sem komið er. Og um gengistap eða gengisbreytingar þá vitum við auðvitað ekki endanlega fyrr en daginn sem greiðslan er innt af hendi hver niðurstaðan verður varðandi það atriði.