Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:34:10 (273)

2003-10-07 19:34:10# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:34]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. n. talaði fjálglega áðan um hina nýju ungu þingmenn Sjálfstfl. sem rekið hefði á fjörur Alþingis undir glæsilegum gunnfána skattalækkana. Ég tel mig vera í þeim hópi, hópi nýrra ungra glæsilegra þingmanna, (Gripið fram í: Ekki Sjálfstfl.) --- ekki Sjálfstfl., nei, hvorki úr Sjálfstfl. né heldur að mig hafi rekið á fjörur hins háa Alþingis undir fána skattalækkana, miklu frekar undir fána þess að ég vil sjá til þess að okkar ágæta land haldist í byggð og þær fórnir sem forfeður okkar hafa fært til að byggja upp landið hafi ekki verið einskis.

Ég verð að segja sem nýliði hér, sem er að ljúka sínum öðrum degi á hinu háa Alþingi, að mér er nokkuð brugðið vegna þess að hér virðast vera svo miklar andstæður í gangi í málflutningi stjórnarflokkanna. Hér töluðu ágætir kollegar mínir á Alþingi mjög hástemmt í gær um skattalækkanir, töluðu um 20 milljarða skattalækkanir árið 2007, sem í sjálfu sér væri góðra gjalda vert ef maður tryði því að eitthvert mark væri á þessu takandi. Því miður fer maður að efast um að þetta eigi við rök að styðjast þegar maður síðan daginn eftir sér frv. til laga um skattahækkanir sem hljóða upp á heilan milljarð. Ég held að enginn vafi sé á því að slík skattahækkun muni náttúrlega leiða til þess að aðstöðumunur landsbyggðarinnar gegn höfuðborgarsvæðinu muni verða verri en hann er í dag. Að sjálfsögðu mun þetta leiða til hækkunar flutningsgjalda. Að sjálfsögðu mun þetta leiða til þess að hækkunin fari beint út í verðlagið. Við þurfum ekkert að efast um það.

Ég sem nýliði á þingi hef ekki séð þá ágætu skýrslu sem menn hafa verið að vitna í en það skal verða mitt fyrsta verk í fyrramálið að finna þá skýrslu, að komast yfir eintak af henni og kynna mér innihald hennar.

Mig langar til að beina einni spurningu til hæstv. fjmrh. Í máli hans áðan kom fram að ástæðan fyrir því að hann hefði ekki farið fram á þessa hækkun fyrr væri sú að hann hefði nánast gleymt þessu, þetta væri eins konar óhapp. Sá grunur læðist nú að mér, þó að ég sé nýgræðingur hér inni, að þetta hafi hreinlega ekki verið neitt óhapp. Ástæðan fyrir því að þetta var ekki tekið upp í fyrra eða hittiðfyrra var einfaldlega sú að það voru að koma kosningar og það hentaði málflutningi stjórnarliða afskaplega illa að koma með frv. eins og þetta síðustu missirin fyrir kosningar. Þar af leiðandi hafi stjórnarliðar ákveðið að humma þetta fram af sér fram yfir kosningar.

Við lesum í þessu þskj. að hækkunin hljóði upp á heilan milljarð (Gripið fram í.) árlega. Þá langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þessi meinta yfirsjón hans hafi orðið til þess að ríkissjóður hafi kannski orðið af tekjum upp á 2 milljarða. Og þá langar mig til að spyrja hv. Alþingi að því hvort menn séu ekki sammála um að hér sé um ansi alvarlega yfirsjón að ræða ef við erum að tala um svona háar tölur. Ég tel svo vera.

Herra forseti. Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. fjmrh. gæti svarað þessari einföldu spurningu. Hvað hefur þessi yfirsjón hans kostað ríkissjóð mikla peninga?