Umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:13:35 (323)

2003-10-08 15:13:35# 130. lþ. 7.5 fundur 60. mál: #A umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Hvaða áform eru uppi um umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut eftir tvöföldun hennar? Þetta er spurningin sem ég hef lagt fyrir hæstv. samgrh. og ég óska eftir því að í svarinu verði veittar upplýsingar um þær leiðir sem gert er ráð fyrir að umferð hjólreiðafólks verði beint inn á og hvernig gengið verði frá þeim leiðum með tilliti til lýsingar, yfirborðs hjólreiðabrautar og umferðaröryggis.

Virðulegur forseti. Breikkun Reykjanesbrautar hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum eins og lög gera ráð fyrir. Gerðar voru þrjár skýrslur um tvöföldun hennar og í grófum dráttum má segja að umferð hjólandi vegfarenda hafi komið þar við sögu þó að það hafi verið greinilegt af lestri skýrslnanna að málefni þeirra sem kjósa að nota reiðhjól sem samgöngutæki hafi kannski ekki verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá skýrsluhöfundunum.

Þannig segir t.d. í skýrslu Vegagerðarinnar um mat á umhverfisáhrifum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Álftanesvegi, með leyfi forseta:

,,Ekki er fyrirhugað að ráðast í gerð sérstakra hjólreiðastíga, heldur gert ráð fyrir því að hjólreiðafólk og eftir atvikum aðrir sem um svæðið fara án vélknúinna ökutækja noti sömu stígana.``

En, virðulegur forseti, mér leikur sérstök forvitni á að vita hvernig gert er ráð fyrir því að leyst verði úr þörf hjólreiðamanna sem vilja komast á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Í matsskýrslunum er lagt til að hjólreiðar verði bannaðar á Reykjanesbrautinni, en gert er ráð fyrir að hjólreiðafólk eigi að fara inn á gamla Vatnsleysustrandarveginn. Þar með er jú hjólreiðaumferðin aðskilin frá umferð á Reykjanesbrautinni og er það auðvitað vel, því það segir sig sjálft að ekki er beint fýsilegt að hjóla á braut þar sem ökutæki er að fara á kannski 110 km hraða fram hjá manni.

Þann 7. ágúst sl. birtist athyglisverð frétt í Morgunblaðinu þar sem vitnað er til orða Jónasar Snæbjörnssonar, umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Reykjanesi. Í fréttinni segir hann að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um að banna hjólreiðar meðfram brautinni. Í fréttinni kemur sömuleiðis fram ákveðin óánægja hjólreiðamanna sem eru ósáttir við það að ekki skuli vera komin úrræði fyrir þá ef hjólreiðar verða bannaðar meðfram Reykjanesbraut eftir að hún verður tvöfölduð.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Ef gera á nauðsynlegar ráðstafanir til þess að unnt sé að beina hjólaumferð um gamla Keflavíkurveginn eða Vatnsleysustrandarveginn, hverjar verða þá þær ráðstafanir, hvers eðlis verða þær og getum við treyst því að við getum verið stolt af því að bjóða hjólandi ferðalöngum að skoða landið okkar vegna þess að þeir finna fyrir því að gert hafi verið ráð fyrir þeim strax á leiðinni frá Keflavík?