Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:34:19 (332)

2003-10-08 15:34:19# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. telur samkvæmt ræðu sinni hér að það hafi beinlínis hvatt ferðamenn til að koma hingað til lands að teknar voru upp hvalveiðar vegna þess að þeim fjölgaði í ágúst og september. Ja, ef þetta er stefnumótunin í samgrn. gef ég nú lítið fyrir hana, satt að segja. (Gripið fram í.) Það er furðulegt ... ja, hæstv. ráðherra svaraði með þeim hætti spurningu hv. fyrirspyrjanda að ferðamönnum hefði fjölgað í ágúst og september og þess vegna hlyti allt að vera í lagi. (Gripið fram í: Það er í lagi.) Og það er auðvitað furðulegt, hæstv. forseti, að samgrh. hæstv. skuli ekki hafa gert neina könnun og ekki hafa neina skoðun á þessum hvalveiðum sem þó hafa staðið til í nánast mörg missiri þegar ákvörðun um þær er tekin. Og ég verð að spyrja hæstv. samgrh. um það hér með vegna þessara mála:

Hefur hann með einhverjum hætti flutt fram kvartanir og ábendingar hvalaskoðunarmanna í ferðaþjónustu um það að verið sé að níðast á þeim á þeirra svæðum með þeim hvalveiðum sem hér hafa farið fram? Þessu óska ég eftir að hæstv. ráðherra svari vegna þess að hann er eftir allt saman samgrh. og er ráðherra ferðamála í landinu og á að standa vörð um hagsmuni þeirrar greinar.