Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:47:06 (462)

2003-10-13 15:47:06# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og skerpa almennt á umræðunni um byggðamálin. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér fannst ég ekki fá mjög skýr svör frá hæstv. iðnrh. varðandi það hvað væri í farvatninu til þess að efla núverandi sjávarbyggðir sem margar eiga við vanda að stríða. Það hefur komið fram í þessari umræðu að frjálst framsal aflaheimilda hlýtur ævinlega að veikja undirstöðu byggðanna vegna þess að menn vita ekki fyrir fram hver tilfærslan verður. Þar af leiðandi hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að það sé afar erfitt að láta byggðastefnu, sem miðar að því að halda byggð í landinu, og núverandi útfærslu á sjávarútvegsstefnu vinna saman.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hæstv. ráðherra skuli vitna til skýrslu frá því árið 2000 sem segir að áhrifin af tilfærslu aflaheimilda sé ofmetin. Ég hélt kannski að undanfarin ár, frá árinu 2000, sýndu mönnum fram á að slíkt passar alls ekki því að staða byggðanna hefur greinilega endurspeglað hvað hefur orðið um aflaheimildirnar. Frá kosningum höfum við séð fjóra staði í uppnámi og nú eru jafnvel stórir útgerðarstaðir á landinu eins og Akranes og Akureyri þegar komnir í varnarstöðu um það hvernig þeir geti komist hjá því að missa frá sér aflaheimildir. Þetta er sú staða sem við stöndum frammi fyrir.

Ég hefði líka viljað heyra frá hæstv. ráðherra, sem ekki heyrðist, einhverjar frekari tillögur um það hvernig menn hyggjast nota tekjur af auðlindagjaldi til þess að efla byggðina en það stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.