Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:30:44 (597)

2003-10-15 14:30:44# 130. lþ. 11.4 fundur 102. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Hæstv. forseti. Upphaf þessarar fyrirspurnar er það að í fjárlagaumræðu um daginn urðu nokkur orðaskipti milli mín og hæstv. fjmrh. um stöðu Ríkisútvarpsins. Það er reyndar, á ég að segja, skemmtileg tilviljun eða a.m.k. fróðleg tilviljun að hæstv. menntmrh. sem nú er, skuli hafa vitnað núna áðan í stöðu lánasjóðsins fyrir u.þ.b. 10--12 árum því sjálfstæðismenn héldu því fram þá í lok ráðherratíðar Svavars Gestssonar þegar ríkisfjármálum var nú skipað með nokkuð öðrum hætti --- það var einmitt breytt um stefnu í þeirri stjórn undir forustu þáv. fjmrh. afar hæstv., Ólafs Ragnars Grímssonar --- en þá kölluðu sjálfstæðismenn það svo að lánasjóðurinn væri gjaldþrota. Svipað má raunar segja með lögjöfnun eins konar um Ríkisútvarpið nú, en það var að vísu ekki tilefni þessarar fyrirspurnar því að lokum ræddum við hæstv. fjmrh. um sérstakan en þungan hluta af þessum fjármálavanda Ríkisútvarpsins sem eru lífeyrisskuldbindingar þær sem á það voru settar u.þ.b. árið 1994 og komu þá eiginfjárhlutfalli Ríkisútvarpsins úr 88 í 35%. Það er nú komið niður í 9,4 samkvæmt síðustu tölum og sennilega í 6--7 núna þannig að það voru ekki bara lífeyrisskuldbindingarnar sem gerðu þetta heldur líka hallarekstur og óstjórn undir stjórn menntamálaráðherra Sjálfstfl. sem síðan hafa setið.

Ég vil hins vegar segja það um þetta mál að það var þó gert að sett var saman skýrsla, og skilað af embættismönnum ágætum, um fjármál Ríkisútvarpsins haustið 2001 sem fjallaði m.a. um það að leysa þyrfti þetta mál, leysa lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins sem er, eins og hæstv. menntmrh. best veit, ekki sams konar stofnun og aðrar ríkisstofnanir sem vissulega bera þessar lífeyrisskuldbindingar nýjar og gamlar en fá þær greiddar á fjárlögum. Þannig háttar ekki til.

Framhaldið á þessari skýrslu var það í þeirri ríkisstjórn sem þá sat að tveimur ráðherrum hæstv., þáv. menntmrh. og þáv. heilbrrh., sem enn er heilbrrh., var falið að setjast í sérstaka ráðherranefnd til þess að skoða fjármál Ríkisútvarpsins. Sú ráðherranefnd hefur ekki enn þá skilað áliti, enda er þáv. menntmrh. hættur. Hæstv. fjmrh. svaraði spurningu minni um daginn með því að vísa til menntmrh. sem væri að beita sér í þessu máli eða væri með þetta mál undir höndum, og þess vegna hef ég lagt fram þá fyrirspurn til menntmrh. um lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins, hvort hann hyggist beita sér fyrir því að létt verði af útvarpinu þessum skuldbindingum og ef svo er, hvenær megi vænta tillagna hans um þetta. Ég vil bæta því við að hér hefur hæstv. ráðherra, sem ég hygg að sé menningarmaður og vinur Ríkisútvarpsins almennt, tækifæri til þess að festa nafn sitt við töluverða léttingu á þessum fjárhagsvanda sem það býr við.