Niðurstaða ráðherranefndar um fátækt

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:49:53 (605)

2003-10-15 14:49:53# 130. lþ. 11.6 fundur 78. mál: #A niðurstaða ráðherranefndar um fátækt# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil bara ítreka að þetta er mjög brýnt verkefni sem þessi hópur er að vinna og við vitum að bilið milli ríkra og fátækra hefur verið að aukast og eykst stöðugt. Það sýnir sig í upplýsingum þeirra sem hafa verið að veita þeim aðstoð sem eru illa staddir, einstæðingum og einstæðum foreldrum. Ég vil minna á könnun sem aðstoðarlandlæknir Matthías Halldórsson gerði fyrir nokkrum árum um hvaða afleiðingar það hefur fyrir börn að alast upp við fátækt. Það hefur sýnt sig að heilsufar barna sem alast þannig upp er mun lakara en annarra barna. Við vitum að bætur á Íslandi eru mun lægri en í nágrannalöndunum. Það eru ýmsar fátæktargildrur inni í kerfinu sem þarf að losna við þannig að fólk geti aukið tekjur sínar, þó ekki væri nema tímabundið. Þetta ástand kemur niður á öllum. Það kemur niður á félagslega kerfinu. Það kemur niður á heilbrigðiskerfinu. Það kemur niður á velferð þeirra sem búa við fátækt og lífsgæðum þeirra. Þess vegna er mjög brýnt að tekið verði á þessu máli.