Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:17:46 (687)

2003-10-16 14:17:46# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að mörkin fyrir hátekjuskattinn, 350 þúsund, mættu vera hærri. En þá gefur hann bara engar tekjur í ríkissjóð. Tekjur fara mjög hratt lækkandi, þessi stofn, ef mörkin eru hækkuð. Það eru nefnilega svo sárafáir framteljendur með mjög háar tekjur. Sumir hafa kallað þetta öfundarskatt af því að hann gefur sáralítið en dregur úr frumkvæði og dugnaði þeirra sem eru með háar tekjur. Hann gefur sem sagt mjög lítið. Það sem þetta frv. gengur út á er að taka fyrst hátekjuskattinn af fólki, þeim sem hafa háar tekjur, og greiða þeim síðan óskertar barnabætur til baka. Ég sé nú ekki tilganginn í því.