Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:31:37 (693)

2003-10-16 14:31:37# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um tillögu okkar, þingmanna Frjálsl., sem við flytjum öll saman. Við viljum huga að því hvernig megi bæta hag barnafjölskyldna í landinu í gegnum breytingar á skattkerfinu, með því m.a. að velta því upp hvort það sé hugsanlega æskileg og góð leið að tekinn verði upp sérstakur skattafsláttur sem tilheyri börnum en sem fjölskyldan, foreldrar og forráðamenn, geti nýtt sér og sínum til framfæris og til betra lífs.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir fór nákvæmlega yfir efni þessarar þáltill. og þess vegna mun ég ekki endurtaka það hér. Ég vil aðeins segja það að við teljum í Frjálsl. að það sé afar mikil þörf á því að skoða hvernig megi lagfæra stöðu barnafjölskyldna í landinu og þetta sé einn af þeim raunverulegu kostum sem geti vissulega komið til greina. Við viljum einnig vekja athygli á því að í kosningabaráttunni á sl. vori ræddum við iðulega um tvennt varðandi skattamál, annars vegar stöðu barnafjölskyldna í landinu og hvernig mætti bæta hana og hins vegar stöðu láglaunafólks og horfðum þá sérstaklega til breytinga á persónuafslætti í því sambandi.

Það er auðvitað alveg hárrétt sem komið hefur hér fram í tali hv. þingmanna að það eru margar leiðir til þess að bæta stöðu barnafjölskyldna í landinu. Sú tillaga sem þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt hér fram, m.a. um að afnema gjöld á leikskólum í landinu, kemur auðvitað barnafjölskyldunum mjög til góða, alveg á sama hátt og sú tillaga sem við hér leggjum til mundi gera það. Það er hins vegar alveg ljóst að þær fjölmörgu hugmyndir sem stjórnarandstaðan hefur lagt til varðandi það hvernig efla mætti stöðu fjölskyldunnar í þessu landi --- Samf. hefur lagt sérstaklega til hugmynd um lækkun á matarskatti --- eru allt saman gegnar og góðar tillögur sem snúa allar í þá veru að bæta hag fjölskyldunnar, sérstaklega barnmargra fjölskyldna. Það er sláandi að stjórnarandstaðan öll sömul skuli hafa þessi atriði í skattkerfinu eða í afkomu barnafjölskyldunnar að sérstöku leiðarljósi við tillögugerð sína hér í þinginu. Þó að við höfum bent á þrjár mismunandi leiðir er alveg ljóst að stjórnarandstaðan í heilu lagi er tilbúin til þess að styðja tillögur sem bæta hag barnafjölskyldna í landinu. Ég vil leyfa mér að vonast til þess, virðulegi forseti, að það verði líka hlutskipti stjórnarflokkanna, að skoðuðu máli, að fara í útfærslur sem duga til þess að bæta hag barnafólks í landinu.

Þjóðin eldist auðvitað þó að ekki gerist það með sama hraða kannski og í öðrum löndum þar sem barnsfæðingum fækkar mun meira en hér á landi en það mun einnig gerast hér á landi á næstu áratugum ef eftir gengur sama þróunin og í öðrum löndum. Þjóðin er vissulega að eldast, lífaldur lengist þannig að það verður hærra hlutfall af eldra fólki í landinu. Þar af leiðandi verða færri á vinnumarkaði til þess að bera uppi kostnað þjóðfélagsins. Það er að mörgu að hyggja í þessu máli og ég tel að við eigum að horfast í augu við það í tíma hvernig við getum eflt stöðu barnafjölskyldna í landinu. Sá hugsunargangur má ekki verða ráðandi hjá ungu fólki að það þurfi að velta því alveg sérstaklega fyrir sér hvort það eigi að fæða börn inn í þetta þjóðfélag vegna kostnaðar af því. Ég tel að við eigum að reyna að bæta hag barnafjölskyldna þannig að kostnaður vegna barnauppeldis minnki og að barnafjölskyldunum verði gert hærra undir höfði en öðrum skattgreiðendum, m.a. með jöfnunaraðgerðum eins og við leggjum hér til. Þess vegna teljum við í Frjálsl. að hér sé hreyft mjög þörfu máli sem ég vonast til að menn taki jákvætt undir við vinnu í hv. nefnd.