Tannvernd barna og unglinga

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:24:31 (713)

2003-10-16 16:24:31# 130. lþ. 13.5 fundur 25. mál: #A tannvernd barna og unglinga# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir stuðninginn við þetta mál. Ég tók orð hennar ekki sem gagnrýni á þáltill.

En það er rétt að þetta kostar mikið. Ég vona að þáltill. fái góðan hljómgrunn og menn átti sig á að það er dýrt fyrir þjóðarbúið að fara ekki í aðgerðir nú þegar og reyna að snúa við þeirri þróun sem komin er á skrið. Þetta mun hafa í för með sér fjárútlát fyrir Tryggingastofnun ríkisins eða ríkissjóð í byrjun. En það mun líka skila sér þegar til lengri tíma er litið.

Ég hef heyrt í tannlæknum sem finnst ástandið þegar orðið það slæmt að þeir líkja því við fyrri tímabil í sögu okkar þar sem ekki þótti óeðlilegt að fá falskar um fermingu. En þá þurfum við auðvitað að fara 40--50 ár aftur í tímann. Þá þótti ekkert tiltökumál að börn fengju falskar um fermingu. Þetta voru börn sem höfðu ekki aðgang að tannlæknaþjónustu og þá var ráðið þetta, að rífa tennurnar úr og fá falskar um fermingu.

Það er okkur til skammar ef við látum stéttaskiptingu í landinu koma fram í mismunandi tannheilsu barna og unglinga, þ.e. eftir því hvort foreldrar hafa efni á því að senda börnin til tannlæknis eða ekki.

Það að horfa upp á að tannheilsu sé að hraka kemur bara niður á okkur síðar, hvort sem það verður ríkissjóður eða einstaklingar sem greiða.