Þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:57:53 (730)

2003-10-17 10:57:53# 130. lþ. 14.98 fundur 97#B þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Ég bað í upphafi fundar um að fá að gera athugasemdir við störf þingsins. Þær athugasemdir vörðuðu raunar ekki það mál sem hér hefur verið rætt og ég hefði talið skynsamlegra að láta það útrætt en úr því að svona er komið og þetta blandast saman verð ég að blanda þessa umræðu hér inn.

Hún er um annað mál jafnalvarlegt sem varðar náttúru Íslands og fugla í þeirri náttúru, þ.e. rjúpuna sjálfa. Þetta er í framhaldi af athugasemd sem ég gerði við störf þingsins á miðvikudag. Ég vildi fá svör frá hæstv. umhvrh. og flutningsmönnum þáltill. nokkurrar sem hér hefur verið lögð fram og er í mjög undarlegu lagi, þ.e. því lagi að jafnvel þó að hún verði samþykkt hefur hún engin áhrif á heimildir ráðherra eða gerðir hennar nema hún kjósi sjálf. Þess vegna voru spurningar mínar á þeim tíma tvær, annars vegar bað ég hæstv. umhvrh. að gera grein fyrir afstöðu sinni til tillögunnar ef hún yrði samþykkt af þinginu áður en við í umhvn. förum að fjalla um tillöguna. Hún verður að vísu ekki tekin fyrir fyrr en mjög langt er liðið á hinn hefðbundna rjúpnaveiðitíma því að í næstu viku er kjördæmavika og þar á eftir kemur saman þing Norðurlandaráðs. Hins vegar beindi ég því til flutningsmanna tillögunnar að gera okkur grein fyrir því hvort þeir hygðust fylgja henni eftir með lagafrv. sem er eina leiðin til þess að Alþingi taki valdið í sínar hendur í þessu máli.

Helsti flm. tillögunnar, 1. flm., hefur að vísu ekki sést í þinginu síðan það hófst nema einu sinni og enginn verið fyrir hann í meðfylgjandi forföllum í menntmn. o.s.frv. Hugsanlega geta samt einhverjir hinna 18 tillögumannanna, þar af 14 sjálfstæðismenn, svarað fyrir þessa tillögu í athugasemdum um störf þingsins.