Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:42:31 (765)

2003-10-17 13:42:31# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það hafa ýmsir hv. þm. aftur og aftur reynt að gera orð hæstv. utanrrh. tortryggileg þegar hann brást mjög hart og réttilega við því þegar hann var sakaður um að vera vísvitandi að brjóta stjórnarskrá og menn hafa reynt að hártoga þetta. En sá sem reyndar hleypti því máli af stað, það er meiri töggur og meiri heilindi í honum en sumum öðrum þingmönnum sem hér hafa talað því að hann sagði, með leyfi forseta, í umræðunni, hv. þm. Ögmundur Jónasson:

,,Ég held að sá sem hér stendur hafi jafnvel einhvern tíma látið þau orð falla, gott ef ekki var í frammíkalli. Þetta er ómaklegt og ég skal alveg viðurkenna að þessi orð vildi ég ekki sagt hafa.`` Þ.e. að menn hefðu vísvitandi brotið stjórnarskrána. ,,Þetta er ómaklegt og ... þessi orð vildi ég ekki sagt hafa.``

Svo kom annar hv. þm. og gerði þessi orð hins vegar að sínum sem þarna var búið að biðjast afsökunar á og sagði að ríkisstjórnin og þingmenn hefðu vísvitandi brotið stjórnarskrána og þegar forseti vítti viðkomandi þingmann, þá fór hann að hártoga orð forseta. Allt var þetta afskaplega fróðlegt að sjá.

En þessi umræða ber þessi merki sem betur fer að þessi síðari dómur Hæstaréttar, öfugt við þann fyrri, er skýr. Hann er algerlega skýr og þess vegna þarf ekkert um hann að deila eins og hinn fyrri, sem eins og flestir menn viðurkenna var afar óskýr. Þessi dómur er algerlega skýr. Stefnandinn tapaði meginmálsástæðu sinni, tapaði meginprinsippi sínu sem gekk út á það ... (Gripið fram í.) Stefnandinn tapaði meginprinsippi sínu sem gekk út á það að fá það dæmt að fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórnin væri að brjóta lög eða þingmeirihlutinn væri að brjóta lög ef hann byggði á því með hvaða hætti mætti tekjutengja við tekjur maka bætur til öryrkja. Sú málsástæða var meginmálsástæða stefnandans. Þess vegna fjallar Hæstiréttur um það af því að það var meginmálsástæða stefnandans. Hæstiréttur hafnar henni.

Og númer tvö hafnar Hæstiréttur kröfunni um fyrningu. Það er einungis þessi uppgjörsþáttur sem lýtur að fortíðinni gagnvart tilteknum hópi öryrkja sem Hæstiréttur fellir dóm um að skuli bættur með tilteknum hætti, þannig að öll lögin standa. Það er meginniðurstaðan þvert ofan í það sem var sagt í þessum þingsal af hálfu virðulegrar stjórnarandstöðu.

Þegar menn hafa verið að tala um að ég hafi í þeim umræðum sagt --- og vitnuðu til orða minna að menn hefðu farið með gífuryrði, þá gerðu menn það, menn gerðu það. Hv. þm. í þeim sal þá og situr í þessum sal núna kallaði lögfræðilega ráðunauta ríkisstjórnarinnar stormsveitir. Ég hygg að hann hafi að vísu verið víttur fyrir það, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þegar hann kallaði lögfræðilega ráðunauta ríkisstjórnarinnar stormsveitir. Ég man ekki hvort hann baðst afsökunar á því eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Svona gekk þetta fram með þessum hætti. Mönnum var heitt í hamsi.

Það sem hlýtur að skipta máli fyrir okkur, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, að meginmálsástæðan sem þar var til umræðu í þessum sal og reyndi á nú fyrir Hæstarétti var dæmd ríkisstjórninni í hag. Nú fara menn að tala aftur um uppgjörsmálið en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði í ræðu sinni áðan í sín eigin orð þar sem sagði: Sá þáttur hefur ekki vakið nægilega athygli. Þetta var rétt hjá hv. þm. Það atriði var nánast ekkert hér til umræðu. Það var hitt atriðið sem ég vitnaði í í upphafi ræðu minnar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson og fleiri fjölluðu um a.m.k. 30 sinnum að eigin sögn og fóru að mati Hæstaréttar algerlega rangt með.