Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:46:25 (833)

2003-10-28 14:46:25# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki feril hv. þm. Péturs H. Blöndals nægilega mikið til þess að vita hvort hægt sé að treysta honum til að reka fyrirtæki með drjúgu tapi. Ég hef heldur engan sérstakan áhuga á því að láta á það reyna.

Hv. þm. talaði í fyrri ræðu sinni um ýmiss konar útgjöld sem mætti allt eins hugsa sér að yrðu dregin frá skattstofni ef þetta yrði samþykkt. En þau útgjöld sem hv. þm. nefndi í þeirri ræðu voru allt saman valfrjáls útgjöld. Munurinn á þessu sem hér er og því sem hann nefndi er að þetta eru lögbundin útgjöld og þess vegna skiptir miklu máli að við náum þessu fram.

Hér eru um lögbundin útgjöld að ræða til stéttarfélaga og jafnræðisreglan sem ég talaði um áðan hlýtur að gilda. Þegar við skoðum báðar hliðar vinnumarkaðarins hlýtur það að gilda að ef atvinnurekendur fá að draga þetta frá skatti, hvað er það þá sem réttlætir það að launamenn fái ekki að draga það frá skatti?

Þetta er kjarnaspurningin, herra forseti. Ég óska eftir að formaður efh.- og viðskn. svari því ef hann treystir sér til þess núna: Hvers vegna ættu launamenn ekki að fá að gera þetta ef einstök fyrirtæki atvinnurekendamegin fá að gera það?

Ég vil síðan segja, herra forseti, að ég gleðst yfir því að hv. þm. hefur ekki fortakslaust kveðið upp úr með andstöðu sína í málinu. Hann hefur að vísu sagt að hann sé ekki það kátur yfir frv. að hann hoppi af kæti. En við höfum hins vegar oft séð hv. þm. töluvert glaðan án þess að hann gangi hér hoppandi um sali, þannig að ég geng að því sem vísu að þrátt fyrir allt bærist örlítill gleðivottur í hjarta hans yfir því að sjá þetta réttlætismál. Ég vænti þess að hv. þm. sé a.m.k. reiðubúinn til að skoða þetta fordómalaust í nefndinni. Við sjáum þá hvort hægt sé að ná einhvers konar samstöðu um það.

Ég hef margsinnis reynt hv. þm. að því að fara sínar eigin leiðir en komast að niðurstöðu sem mér finnst sanngjörn og réttlát. Við skulum sjá hvort það gildir líka í þessu máli.