Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:58:52 (951)

2003-10-30 12:58:52# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Þarna er ég ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að rétt væri að þingið gæfi skýrslu um skýrslu umboðsmanns eins og hefur reynst ágætlega í nágrannalöndunum. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að sá munur er á starfi umboðsmanns Alþingis annars vegar og Alþingis hins vegar að Alþingi eitt hefur þá stjórnskipulegu stöðu að geta framkvæmt eitthvað, geta breytt lögum og breytt umhverfinu þannig að tryggt sé að eftir því sé farið.

Umboðsmaður Alþingis hefur heimild til að gefa tilmæli en við höfum valdið til að breyta lögum til þess að tryggt sé að því sé framfylgt. Þess vegna teldi ég að ábyrgð okkar væri betur tryggð, það væri öruggara að við mundum axla þá ábyrgð sem á okkur er lögð í þessum efnum ef þingið mundi skila af sér einhverri álitsgerð um þessa skýrslu. En um þetta erum við ósammála og er í sjálfu sér ekkert meira um það að segja greinilega, en þetta er eindregin skoðun mín og ég vek líka athygli á því að þetta hefur reynst vel í öðrum þjóðþingum.