Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 16:05:28 (978)

2003-10-30 16:05:28# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Ég ætla í upphafi máls míns --- og ætla ekki að vera langorð --- að þakka hv. 1. flm. frv. fyrir ágæta framsögu sína og lokaorð líka, en þar sem sú sem hér stendur sat í forsetastól áðan fékk ég orðið á eftir 1. flm. er hún lokaði umræðunni.

En það voru aðeins örfá atriði sem mig langar að leggja áherslu á. Aftur er tilefnið orð hv. þm. Ástu Möller þar sem hún heldur því fram að aðaláherslan í kynningu á frv. hafi verið lögð á það að sjálfstæðiskonurnar væru ekki með á því. Og hún tekur stórt upp í sig og segir að systrasamstaðan á þingi hafi verið látin víkja fyrir árásum á sjálfstæðiskonur og fyrir þeim tilgangi að koma höggi á sjálfstæðiskonur.

Af því að það upplýstist hér í upphafi umræðunnar að ég hefði verið aðalhvatamaður þess að konur stæðu saman að þessu þá langar mig að leggja orð í belg og árétta það að einmitt til þess að það yrði ekki gert að flokkspólitísku máli var svo mikil áhersla lögð á það löngu fyrir þá dagsetningu, 1. október þegar þing kom saman, að ná fullri samstöðu meðal kvennanna þannig að ekki væru flokkspólitísk sjónarmið þar á bak við og gefa öllum sjálfstæðiskonunum kost á því. Og þó svo að frv. væri sent og ákveðinn tölvupóstur á þingkonur Sjálfstfl. þennan tiltekna dag eða daginn áður en þing var sett, þá var búið að vera í sambandi og samræðum við þær töluvert áður og a.m.k. einhver hluti þeirra átti þess kost að setja sig inn í málið.

En þær eru auðvitað frjálsar að skoðun sinni og afstöðu til frv. og þær eru fyrst og fremst bundnar af sannfæringu sinni eins og við af okkar. Ég ætla því ekki að fetta fingur út í það þó að skoðanir einhverra þingkvenna fari ekki saman við skoðanir meiri hluta kvenna á þingi sem standa að þessu frv.

Hins vegar er margt sem kemur upp í umræðunni. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hafði orð á því fyrr í dag að ég hefði skipt um skoðun. Ég ætla viðurkenna það hér og nú að ég skipti ekki um skoðun þegar ég sá kvikmyndina Lilya 4-ever. Ég er búin að fara í marga hringi í þessu máli eins og svo margar aðrar þingkonur, held ég. Það sem m.a. hefur stundum staðið í manni er að gera eigi kaup á vændi refsiverð en að salan sé ekki refsiverð. Hv. þm. Ásta Möller nefndi það fyrr í dag og fór að líkja þessu við sölu á fíkniefnum. En eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir benti henni á erum við annars vegar að tala um vöru, að vísu ólöglega, og hins vegar erum við að tala um mannslíkama þannig að því er ekki saman að jafna.

En þegar maður skoðar síðan aðstöðu þeirra kvenna sem hafa lent í vændi, ég tala nú ekki um konurnar sem eru fluttar hingað mansali frá Eystrasaltsríkjunum, eins og myndin Lilya 4-ever sýndi nú einna gleggst og opnaði augu margra, þá getur maður kannski horft til nauðgunarbrotanna. Eigum við líka að hafa refsingu við því að vera nauðgað? Það er svo mikil nauðung á bak við þessi vændisbrot og á bak við mansalið að hægt er á ákveðinn hátt að jafna því við nauðgunarbrot. Ekki er hér nokkur talsmaður þess að þeim sem er nauðgað sé líka refsað. Ég skil því í rauninni ekki þessa samlíkingu og langaði aðeins að koma þessu á framfæri.

Ég nefndi það líka við upphaf umræðunnar eða í fyrri ræðu minni að við yrðum að skoða þetta heildstætt, við yrðum að skoða vændið og síðan klámvæðinguna og mansalið. Sumir halda því fram að lagabreytingin sem gerð var á síðasta þingi þegar þyngd voru refsiviðurlögin við kynferðislegum afbrotum gegn börnum hafi borið einhvern árangur. Mig langar í því tilliti að halda hinu gagnstæða fram og ég spyr mig stundum: Hver er ástæðan fyrir þeirri 15% aukningu kynferðisbrota í samfélaginu? Frétt um skýrslu ríkislögreglustjóra um afbrotatölfræði 2002 var birt í Morgunblaðinu 23. október. Um er að ræða 15% fjölgun slíkra brota.

Ég held, án þess að ég byggi það á nokkrum vísindalegum rökum, að það sé klámvæðingin. Ég held að þetta orsakist af hinni miklu klámvæðingu vegna þess að gildismat og öll viðhorf eru svo á reiki að það hálfa væri nóg gagnvart mörgum í samfélaginu.

Ég held að við eigum einhvern tíma eftir seinna á þessu þingi að ræða nánar um klámið og mig langar þá í því tilviki að vekja máls á því að ég kem stundum í skóla og hitti foreldra unglinga. Aftur og aftur heyri ég á foreldrum hvað þeir furða sig allir og fordæma og hafa mikla andstyggð á þessari klámvæðingu. Og svo spyrja þeir: Er ekki hægt að setja einhver lög við þessu?

Þessi viðhorf foreldra koma bara ekki svo mikið fram, og maður hvetur fólk til þess að láta í sér heyra. Það var einmitt í Mannlífsblaði nýlega sem tvær áberandi konur fjölluðu sérstaklega um þetta og fordæmdu klámvæðinguna. Ég er með ljósrit af greinunum, og ég hvet fólk til að kynna sér þær, en þessar konur voru annars vegar Andrea Róberts og hins vegar Ágústa Johnson framkvæmdastjóri. Ég fagna því þegar fólk kemur fram vegna þess að að öllu jöfnu þegar fólk talar um og fordæmir þetta þá er það ásakað um tepruskap, það sé á móti tjáningarfrelsinu og það koma allar þær úrtölur.

En mig langar að lokum, frú forseti, að hafa orð á að sumir segja að ekki sé tímabært að breyta þessum lögum. Það er komin fjögurra ára reynsla í Svíþjóð, góð reynsla, sem sýnir að stórlega hefur dregið úr mansalinu. Það eru engar neikvæðar hliðarverkanir sem hafa komið í ljós, og ég segi ekki annað en það að ekki er eftir neinu að bíða.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði orð á því áðan að baráttan eftir þessa umræðu væri síðan í allshn., að málið yrði ekki svæft þar heldur að ná því út.

Þá vil ég benda á að þegar þetta mál var flutt áður var það sent út til umsagnar og að stærstu leyti er frv. óbreytt frá frv. eins og það var þegar það var sent út til umsagnar. Og það sem meira er að neikvæðu umsagnirnar voru um síðustu málsgreinina í frv. eins og það var, málsgrein sem er ekki lengur í þessu frv. Ég sé því til að mynda engin rök til annars en að stuðst verði við þær umsagnir sem þegar liggja fyrir og við þurfum ekki að eyða frekari tíma í að senda málið út til umsagnar á þessu þingi, heldur getum byggt á þeim umsögnum sem þegar liggja fyrir.