Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:01:13 (990)

2003-10-30 18:01:13# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., AKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu var flutt á síðasta þingi eins og fram kom í máli málshefjanda, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hún er hér endurflutt í þeirri veiku von flytjenda að það megi þoka stjórnarliðum til þess að hyggja að hinum stórkostlegu vandamálum á vissum svæðum landsins.

Ég ætla sérstaklega að vekja athygli á því að vandamálin sem við er að etja víða úti á landsbyggðinni eru til komin einmitt vegna aðgerða ríkisvaldsins og get ég þar talið upp fjölmarga þætti. Fiskveiðilöggjöfin er stjórnvaldsaðgerð sem hefur haft mjög mikil áhrif til hins verra t.d. fyrir byggðir á Vestfjörðum. Samningur um sauðfjárrækt er algerlega misheppnaður og kemur mjög hart niður á sveitum landsins. Sveitarfélögin eru veikburða og það er m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur lagt á herðar sveitarfélaganna verkefni án þess að á móti komi nægilegt fjármagn. Verkefni eins og t.d. yfirtaka skólanna gekk vel fyrir sig vegna þess að það var sannfæring beggja að sveitarfélögin mundu standa vel að verki eins og sýnt hefur verið fram á. Ríkisvaldið hafði hins vegar sparað og dregið saman í rekstri grunnskólanna til margra ára og það hefur komið í hlut sveitarfélaganna með tilheyrandi kostnaði að byggja starfsemi grunnskólanna aftur upp.

Núna á síðustu dögum er verið að hækka bensíngjald og þungaskatt sem mun koma sérstaklega hart niður á landsbyggðinni. Það er verið að lækka hátekjuskatt lítils háttar. Það er aðgerð sem mun næstum örugglega gagnast mest hér á höfuðborgarsvæðinu eða á þeim stöðum landsins þar sem ástandið er gott.

Það er alveg ljóst að eitt af því besta sem hægt er að gera til hagstæðrar þróunar er að bæta samgöngur. Á Vestfjörðum eru samgöngur með fádæmum og þar bíða mjög stór verkefni, t.d. að tengja Suður- og Norður-Vestfirði þannig að Ísafjörður geti í raun orðið sú þjónustumiðstöð sem því sveitarfélagi er ætlað að vera, ekki aðeins fyrir norðurfirðina heldur einnig fyrir suðurfirðina. Það þarf einnig að tengja Dalina og Húnavatnssýslu en það er samvinna milli Dalamanna og Húnvetninga um úrvinnslu landbúnaðarafurða sem er báðum aðilum mjög mikilvæg. Um vetrartímann neyðast t.d. mjólkurbílar til að keyra alla leið í Borgarnes eða þar fram hjá til að komast í Búðardal með afurðir sínar í staðinn fyrir að fara yfir Laxárdalsheiði eins og hægt er yfir sumartímann.

Hafin er uppbygging Þverárfjallsvegar milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar og það er þörf á því að hraða þeirri framkvæmd. Sú framkvæmd er einmitt gullið dæmi um það hvernig samgöngubætur geta orðið til góðs. Það eru nú þegar uppi miklar umræður um samstarf þeirra sveitarfélaga í atvinnumálum sem eru beggja vegna í Húnavatnssýslum, þ.e. Skagastrandar og Blönduóss og sveitanna þar í kring og sveitarfélagsins Skagafjarðar hins vegar. Það er talað um daglegan akstur bæði í framhaldsskólann á Sauðárkróki og eins er Hólaskóli með kennslu á háskólastigi bæði á Sauðárkróki og á Hólum sem verður auðvelt fyrir íbúa Austur-Húnavatnssýslu að nýta sér eftir að þessi vegur verður kominn í gott lag.

Það er mikil þörf á því að gera stórátak í menntamálum á landsbyggðinni, ekki síst í Norðvesturkjördæmi þar sem menntunarstig er því miður með því lægsta sem gerist á landinu. Þar með er grundvöllur fyrir flutningi ýmissa atvinnutækifæra sem við svo gjarnan viljum sjá úti á landi, þar sem krafist er meiri menntunar, veikari en ella. Það dugar því ekki að geyma þessa uppbyggingu í lengri tíma en nú er orðið.

Eins og fram hefur komið í máli þeirra ræðumanna sem talað hafa fyrr í dag er tíminn að renna frá okkur. Þessum byggðum sem við erum þingmenn fyrir, við þrjú sem talað höfum til þessa, er að blæða út mörgum hverjum. Og það dugir ekki að bíða fimm, sex, sjö eða tíu ár þar til bylgjan sem er að fara af stað núna með framkvæmdunum fyrir austan hefur hjaðnað. Ekki nema menn vilji virkilega sjá þessum byggðum blæða út, það kann að vera. Ég segi stundum, herra forseti, að aðgerðaleysi sé líka aðferð, það er aðferð að aðhafast ekki neitt. Því miður, herra forseti, hef ég grun um að það eigi t.d. ekki að aðhafast neitt í málefnum byggðanna á suðurhluta Vestfjarða. Ég sé þess satt að segja engin merki, því miður, herra forseti. Og þetta er stefna, ég legg á það áherslu. Með þessu móti er náð fram ákveðnum málum.

Ég ætla að leyfa mér að vona, herra forseti, að þessi grunur minn sé rangur og stjórnarliðar og ríkisstjórnin hafa tækifæri til að sýna fram á að svo sé og ég ætla rétt að vona að þeir geri það.