Nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:25:02 (1019)

2003-11-03 15:25:02# 130. lþ. 19.1 fundur 116#B nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og þó sérstaklega þær áherslur sem fram koma í máli hans um að hann vilji standa vörð um samfélagslega rekna heilbrigðisþjónustu. Ég hefði talið heppilegt að setja nefndinni einhver tiltekin tímamörk en þó er mikilvægast, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að hún vandi vel til verkanna. En eitt má hæstv. heilbrrh. vita að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun veita honum fullan stuðning við að styrkja samfélagslega rekna heilbrigðisþjónustu, laga þær brotalamir sem þar er að finna og standa gegn ásókn gróðaaflanna sem nú reyna að safna liði um sína hagsmuni. Það er staðreynd að markaðsvædd heilbrigðisþjónusta er dýrari fyrir samfélagið og leiðir til misréttis sem aldrei á að líðast.