Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:24:32 (1043)

2003-11-03 16:24:32# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er allt rétt. Hver byggði upp kerfið? Hvers vegna hefur Ísland verið í fremstu röð á svipi fjarskipta? Hvers vegna bjuggum við við einhver hagstæðustu símgjöld í allri Evrópu áður en menn fóru að ráðskast með Póst og síma? Það var af því að byggt var upp eitt sterkt sameiginlegt þjónustusinnað fyrirtæki sem veitti landsmönnum ótrúlega góða þjónustu um allt land í okkar stóra strjálbýla landi. Reynslan af hinu opinbera fyrirtæki var nú ekki verri en sú að það er viðurkennt að Ísland var í fararbroddi hvað það varðaði að taka inn tækninýjungar og koma þeim til allra landsmanna. Uppbygging NMT-kerfisins var ein sú hraðasta og fyrst á ferðinni í allri Evrópu hér. Póstur og sími sá um það fyrir 12--15 árum síðan. Sama gerðist aftur þegar GSM-kerfið fór af stað o.s.frv. Það eru þó meðmæli eða hvað með því að það hafi nú ekki verið svo slæmt fyrirkomulag sem gat afrekað þetta í landi við aðstæður eins og raun ber vitni hér?

Aðeins varðandi grunnnetið og að rök fyrir því að fara þessa leið séu að hér sé komin á einhver vísir að samkeppni, t.d. á Reykjavíkursvæðinu og að Landsvirkjun eigi ljósleiðara norður yfir heiðar. Þetta er hvort tveggja atriði sem ég nefndi. En ég benti á það líka að þetta tekur aðeins til hluta landsins. Eftir eru þau stóru svæði sem þetta gildir ekki um. Þessi samkeppni verður þá í besta falli sú að tveir aðilar eru til staðar í landinu, þ.e. klassísk fákeppni. Er það þannig umhverfi sem við viljum innleiða hér að öllu leyti? Ég segi nei. Ég tel að það gefist ekki vel á öðrum sviðum viðskipta þar sem menn eru þó síður bundnir lögmálum náttúrulegrar einokunar en hér á við. Ég á ákaflega erfitt með að sjá að þetta geti gengið vel jafnvel þó að fjarskiptamálaráðherrann sé metnaðarfullur og beiti þeim úrræðum sem á að heita að hann hafi í sínum höndum.